Áfram heldur fjörið

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík og Stjarnan mætast öðru sinni í rimmu sinni í undanúrslitum Iceland Express deildar karla annað kvöld, föstudag og fer leikurinn fram í Ásgarði þeirra Stjörnumanna í Garðabænum.

Mikið fjör er í úrslitakeppninni og í þessum skrifuðu orðum er Þórsarar úr Þorlákshöfn að rúlla KR-ingum upp og jafna þar með rimmu sína við Vesturbæjarstórveldið.  Skyldu Stjörnumenn gera slíkt hið sama á morgun á móti okkur??

Það var greinilega mikill tilfinningahiti í áhorfendum í fyrsta leiknum og er myndin sem tekin var af grindvískum áhorfendum og annar dómara leiksins, horfir spenntur á, hreint stórkostleg!  Ég ætlaði að setja þessa mynd með þessum pistli en það er eitthvað pikkleysi í gangi með síðuna svo hún bíður bara betri tíma.  En ef maður kannast ekki við sitt fólk á þessari mynd!  Á sama tíma og það er frábært að þið áhorfendur góðir sýnið tilfinningar í þessu þá verðum við að passa okkur að gæta velsæmis í orðavali og eins í skrifum á facebook t.d.  Að mínu mati er í góðu lagi að kalla aðeins í dómarana og reyna fá þá til að vera á tánum en um leið og farið er út af hinum gullna meðalvegi í þeim efnum er allt eins líklegt að við skemmum frekar fyrir.  Reynum því að passa okkur og einbeita okkur meira að stuðningi við liðið því það er aldrei nóg af slíku.

Farsinn um Fannar heldur áfram en Keflvíkingar ákváðu í dag að leggja fram kæru vegna olnbogaskota hans í oddaleiknum á móti Keflavík.  Ég skrifaði aðeins um þetta á þriðjudaginn og mátti kannski skilja skrif mín þannig að ég vildi að Stjörnumenn myndu setja Fannar í bann.  Auðvitað vissi ég að það yrði hæpið, við Grindvíkingar myndum aldrei gera það!  Mér fannst Stjörnumenn bara vera komnir í svo netta klípu verandi nýbúnir að kæra Magnús fyrir saklausara brot svo mér fannst fyndið að skella þessu fram.  En Stjörnumenn fóru illa að ráði sínu í þessu máli að mínu mati.  Að tala um að um óviljaverk hafi verið að ræða var dapurt.  Og ef þetta var óviljaverk, af hverju þá að svipta Fannar fyrirliðabandinu?????????????  Ég bara næ þessu ekki alveg hjá þeim.  Ég er viss um að ef Stjörnumenn hefðu fordæmt þessa hegðun Fannars og einlægt beðist afsökunar á framferði hans, að þá hefðu Keflvíkingar látið málið niður falla.  En málið er sem sagt komið inn á borð til KKÍ og verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála.

Sem fyrr óska ég Fannari þess ekki að fara í bann.  Hann verður held ég ekki örlagavaldurinn í þessari rimmu en það skrifa ég með fullri virðingu fyrir honum.

Enn og aftur snýst þetta um hvernig við Grindvíkingar mætum til leiks.  Með höfuðið rétt skrúfað á eru okkur allir vegir færir en á góðum degi erum við virkilega skeinuhættir!  Mögnuð breidd og góðir leikmenn í öllum stöðum.  En andlausir erum við jafn lélegir!  En það er úrslitakeppni og þá er bannað að koma andlausir til leiks og á ég því von á mínum mönnum grimmum til leiks og kæmi mér hreinlega ekki á óvart ef við vinnum eftir jafnan leik!

Gaman frá því að segja að Körfuknattleiksdeild Grindavíkur hefur sett upp facebook síðu og hvet ég alla til að senda vinabeiðni – ef þeir eru ekki nú þegar orðnir vinir kkd.umfg en núna eru 354 vinir komnir og við byrjuðum í gær……  Stefnum á að setja vinahópinn í 1000+ áður en leik lýkur á þessu tímabili svo vonandi höfum við tæpan mánuð til stefnu….. 🙂

Áfram Grindavík!