„Ætlum okkur stóra hluti“

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Kæru Grindvíkingar!

Það er búið að taka mig smá tíma að koma mér í sætið til að taka pennann í hönd og rita niður formannspistilinn þetta tímabilið. Það er einhvernveginn allt svo skrítið á þessum margnefndu covid tímum, og ekkert í takt við neitt eins og maður er vanur. Á þessum tíma fyrir ári var körfuboltinn á fullu, allt skýrt og skorið á meðan núna ríkir mikil óvissa sem enginn getur sagt til um hvernig endar. Hvorki hvort tímabilið verði flautað af eða á. Það ríkti mikil tilhlökkun hjá okkur fyrir þessu tímabili. 

Nýr framkvæmdarstjóri, Jón Júlíus Karlsson, var ráðinn í það stóra hlutverk að aðstoða hverja deild fyrir sig á þann hátt sem best er á kosið, hjálpa öðrum deildum að vinna að góðu samstarfi og koma með reynslu til okkar frá fyrrverandi vinnustað sínum. Nýir leikmenn eru mættir á svæðið bæði kvenna og karla megin og aðrir leikmenn búnir að kveðja okkur og farnir annað. 

Breytingar á leikmannahópum

Það er ekki auðvelt að fara á stað í tímabilið kvenna megin þegar reynslu miklir leikmenn hafa kvatt okkur, leikmenn eins og Ingibjörg, Hrund, Bríet og Ólöf Rún, en við þökkum þeim kærlega fyrir sitt framlag til deildarinnar og óskum þeim góðs gengis. Við ætlumst ekki til þess að nýi leikmaðurinn okkar Agnes Fjóla Georgsdóttir fylli í skarðið þeirra en það ríkti mikil gleði þegar hún vildi koma. Agnes er hávaxin stúlka eða 180cm og á eftir að hjálpa okkur mikið. Ólöf Helga Pálsdóttir Woods er komin heim aftur og er tekin við af Jóhanni Árna Ólafssyni með mjög ungt og spennandi kvennalið í höndunum þannig að tilhlökkunin er mikil. Við þökkum Jóhanni kærlega fyrir samstarfið en hann er nýr forstöðumaður íþróttahússins og tók við af Hermanni frænda.

Unnið að framförum

Fyrir komu Jóns Júlíusar fannst mér ýmislegt ábótavant eins og t.d það að við vorum ekki með beinar útsendingar frá leikjum, hvorki í körfuboltanum né öðrum íþróttum, heimasíðan okkar sem einu sinni þótti góð var komin til ára sinna. Ég lagði smá vinnu í að koma þessu á laggirnar en án árangurs þannig að mitt fyrsta verk var að spyrja Jón hvernig við gætum gert þetta. Hann var fljótur að svara því og kippa þessum málum í lag. Ný heimasíða er komin í loftið og við erum farin að geta sýnt viðburði sem ekki eru sýndir í beinni hjá Stöð2Sport. Við höfum fundað varðandi líkamsræktar aðstöðu fyrir afreksíþrótta fólkið okkar sem okkur finnst að þurfi að laga og okkur langar ofboðslega mikið að til þess að getað keppt í efstu deildum í nýja salnum. Það er ekki hægt því fyrst þurfum við að fá stúku og klukku. Það er á dagskrá að ráðast í að fá einhverja dagsetningu þar.

Síðasta tímabil bæði karla og kvenna megin fór ekki alveg eins og við vildum. Við vorum grátlega nálægt því að vera með bæði liðin í Höllinni þegar leikið var til úrslita í bikarkeppninni karla og kvenna en stelpurnar duttu út á loka metrunum. Karlaliðið lék á móti Stjörnunni og hentu í ansi spennandi leik þrátt fyrir að hafa verið með kanann okkar í leikbanni eftir umdeilda ákvörðun aganefndar. Þessum leik verður seint gleymt sökum aðdragandans en svona er körfuboltinn. Tímabilið endaði svo eins og allir vita á að covid19 mætti á svæðið og ekkert varð að úrslitakeppninni.

„Við höfum fundað varðandi líkamsræktar aðstöðu fyrir afreksíþrótta fólkið okkar sem okkur finnst að þurfi að laga og okkur langar ofboðslega mikið að til þess að getað keppt í efstu deildum í nýja salnum. Það er ekki hægt því fyrst þurfum við að fá stúku og klukku. Það er á dagskrá að ráðast í að fá einhverja dagsetningu þar.“

Á síðasta aðalfundi var kosið í barna- og unglingaráð, nýja stjórn og formann deildarinnar. Ég hef á mínum fáu árum ekki séð svona góða mætingu og færri komust að en vildu sökum takmarkanna. Ég verð að fá að þakka fyrir traustið sem nýrri stjórn og mér sem formanni var sýnt með þessari kosningu. Það var góð tilfinning að sjá allar þessar hendur á lofti þegar það var kosið, það er ákveðin viðurkenning að fá alvöru kosningu í fullum sal frekar en 7 manns á aðalfundi eins og þetta er stundum þegar aðalfundur er haldinn.

Mikill metnaður til staðar

Við erum með metnaðarfullt fólk í stjórn sem á bæði stráka og stelpur í körfubolta, fólk sem brennur af áhuga, sem vill lyfta öllu upp á hærra plan og gera enn betur en áður. Það kannski lýsir þessari stjórn vel að þegar covid kom til sögunnar og KKÍ flautaði síðasta tímabil af þá gátum við staðið við gerða samninga. Það er ekki sjálfsagt að hafa náð því og má kannski helst þakka okkar stórkostlegu styrktaraðilum fyrir sitt hlutverk þar. Það er á vörum margra hversu illa margar deildir í kringum okkur standa og þá sérstaklega vegna þess hvernig covid hefur farið með þau fyrirtæki sem standa okkur næst. Okkur hefur tekist vel að sníða okkur stakk eftir vexti og má þakka Sigurði G. Gíslasyni fyrir halda öllu á hreinu þar. 

Ásgerður Karlsdóttir kvaddi stjórnarstörf eftir held ég 19 ára starf sem er hreint út sagt stórkostlegt og algjörlega ómetanlegt að hafa starfað svo lengi í sjálfboðastarfi fyrir deildina. Í hennar stað kom Fjóla konan mín en Ása eins og við köllum hana kom henni inní gjaldkera hlutverkið áður en hún kvaddi. Rakel Lind er ný i stjórn, hún er vinnuhesturinn okkar og ritari. Ernu Rún Magnúsdóttir þarf ekki að kynna, nema þá að hún er fyrrverandi leikmaður Grindavíkur, núverandi þjálfari, nuddari, einkaþjálfari og pottþétt eitthvað meira. Heiðar Helgason er einnig nýr í stjórn en hann og Haraldur Jóhannesson hafa unnið þrekvirki á Túngötunni og tókst þeim að gera hana klára fyrir þetta tímabil. Með hjálp þeirra er búið að skipta um gólfefni að stærstu hluta á jarðhæð og einnig eldhúsinnréttingu með öllu tilheyrandi. Jón bróðir lagði svo lokahönd á pípulagninguna. Atli Kolbeinn og Bergvin bróðir tóku svo hendinni til og fóru fyrir okkur nokkrar ruslaferðir í lokin. Takk strákar, öll þessi hjálp er ómetanleg. Víkurafl, nýr styrktaraðili hjá okkur hefur svo séð um alla rafmagnsvinnu fyrir okkur og ekki tekið 1 krónu fyrir það, hver trúir því? Takk drengir! 

Að lokum

Með jákvæði að leiðarljósi höldum við áfram og við ætlum okkur stóra hluti. Við eru ótrúlega flott í litlu sjávarplássi með svakalega sterkt afl á bakvið okkur. Allir okkar stærstu styrktaraðilar hafa ákveðið að standa með okkur vaktina og endurnýjað samninganna við okkur sem er eiginlega ótrúlegt á þessum forkastalegum tímum. Ef ekki væri fyrir styrktaraðilanna og stuðningsmennina okkar, þá væri ég sennilega ekki að skrifa þennan formannspistil og róðurinn sem framundan væri mun erfiðari en hann er.

Með von um að við fáum öll að horfa á meiri körfubolta í vetur en tímabilið 2019-2020. 

Kærar þakkir – Áfram Grindavík!
Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar UMFG

Pistill formanns kkd. Grindavíkur er að finna í jólablaði körfuknattleiksdeildar sem kom út síðla árs 2020. Blaðið má sjá í heild sinni með því að smella hér.