Körfuboltinn byrjar aftur í kvöld eftir gott jólafrí og það verða þrír áhugaverðir leikir hjá meistaraflokkum um helgina.
Fyrst er það leikur Grindavíkur og Tindastóls klukkan 19:15 í kvöld. Liðin eru á sitthvorum endanum á töflunni, Grindavík efst með Þór en Tindastóll á botninum. Tindastóll er þó sýnd veiði en ekki gefin því þeir gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Fyrirtækjabikarinn í haust.
Á morgun klukkan 16:30 mæta stelpurnar KR hér heima í Grindavík. KR er fyrir leikinn í þriðja sæti með 18 stig en Grindavík í því sjötta með 8 stig.
Á sunnudaginn er einnig áhugaverður leikur því þá fara strákarnir í Sandgerði þar sem þeir mæta Reyni í 8 liða úrslitum Powerade bikarsins.