3 leikir / 3 sigrar

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Meistaraflokkarnir léku þrjá leiki um helgina og unnust þeir allir.

Fryst mætti karlaliðið Tindastól og sigruðu 89-74.  Samuel Zeglinski var stigahæstur með 19 stig og Aaron Broussard 18 stig og 13 fráköst.

Á laugardeginum sigruðu stelpurnar KR í baráttuleik.  Hér fyrir neðan er umfjöllun frá karfan.is og myndin hér að ofan er fengin af sama stað:

“Grindavík byrjaði að pressa strax frá 1 mínútu. Í fyrsta leikhluta skoraði Grindavík fyrstu 7 stigin. KR voru stigalausar fyrstu 4 mínúturnar en komu þó sterkar til baka og skoruðu næstu 9 stig. Staðan var því 7-9 KR í vil. Leikhlutinn hélt áfram að vera jafn á stigum og var staðan 15-13 Grindavík í vil í lok leikhlutans. Mikil barátta var í báðum liðum og var hart barist.

KR virtist slaka eitthvað á í öðrum leikhluta og skoraði Grindavík 21 stig á móti 11 stigum hjá KR. En þær töpuðu boltanum 14 sinnum í fyrri hálfleik enda Grindavíkurstúlkur búnar að vera pressa mikið. Grindavík jók því forystuna um 10 stig á milli leikhluta og staðan orðin 36-24 fyrir Grindavík.

Sigur Grindavíkur var aldrei í hættu eftir annan leikhlutann. Þær voru yfir það sem eftir var leiksins. Í þriðja leikhluta náði Grindavík að komast 18 stigum yfir um miðjan leikhlutann. 3 leikhluti og endaði hann 53-40 Grindvík í vil.

Það var ekki fyrr en um miðjan 4 leikhluta þar sem KR náði sér á rétt ról. Munurinn fór að minnka og þegar rúm mínúta var eftir var einungis 5 stiga munur. Finnur þjálfari KR átti öll leikhlé sín eftir og KR fór að brjóta og taka leikhlé. En þær áttu engan séns á að vinna þar sem Grindavík setti niður vítin 6 sem þær tóku síðustu 40 sekúndur leiksins. Leikurinn endaði því í tölunum 67-56 Grindavík í vil.

Grindavíkurstúlkurnar hófu leikinn á sama hátt og strákarnir í gær með því að skora fyrstu sjö stig leiksins. Mikil barátta var í Grindvíkurstúlkum og pressuðu þær mest allan leikinn. Sigrún Sjöfn Ámundardóttir var lykilleikmaður KR og stóð hún sig með prýði. Rétt er það haft eftir live-stattinu en þær spiluðu kanalausar líkt og karlalið þeirra í gær.

Fyrir Grindavík var það Petrúnella Skúladóttir sem var stigahæst með 22 stig, 11 fráköst og 6 stolna bolta. Crystal Smith var með 16 stig og 5 stolna bolta, en tapaði þó boltanum 4 sinnum. Helga Rut Hallgrímsdóttir var með 10 stig og 10 fráköst. Stelpur Grindavíkurliðsins spiluðu allar af hörku og börðust vel. En liðið í heild sinni tók 47 fráköst og stal 20 boltum.

Hjá KR var það Sigrún Sjöfn Ámundardóttir sem var stigahæst með 20 stig og 16 varnarfráköst. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var með 13 stig og 19 fráköst og Björg Guðrún Einarsdóttir var með 12 stig. KR stelpurnar voru í vandræðum með boltann og töpuðu honum 27 sinnum í leiknum (14 í fyrri hálfleik og 13 í seinni). En mikil barátta var í fráköstunum og tók liðið alls 53 fráköst, af þeim tóku Sigrún og Guðrún 35.”

 

Að lokum sigruðu strákarnir Reyni Sandgerði örugglega 112-68.  Stigaskor dreifðist jafnt á milli manna og athyglisvert að bæði Ólafur Ólafsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson voru með 100% nýtingu innan þriggja stiga línunnar.