Grindavík sigraði Njarðvík örugglega í öðrum leik liðanna í 4 liða úrslitum í gærkveldi. Allt frá því að strákarnir byrjuðu upphitun fyrir leikinn sá maður á þeim að þeir ætluðu að landa sigri. Sem þeir sýndu strax frá upphafsmínútunni því það var aldrei spurning hvoru meginn sigurinn færi.
Frábær varnarleikur, mikil barátta, flæði í sóknarleik, skot fyrir utan loksins að rata rétta leið og almenn leikgleiði einkenndi leik Grindavíkur í gær.
Grindavík skoraði 6 fyrstu stigin og það var ekki fyrr en á fjórðu mínútu sem fyrstu stig heimamanna komu á töfluna. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 25-13. Njarðvík minnkaði muninn í öðrum leikhluta en alltaf var 7-12 stig á milli liðanna og undir lokinn gáfu okkar menn í og enduðu með 22 stiga mun, 95-73
Ernest Lewis Clinch Jr var frábær í leiknum með 34 stig, þar af 25 í fyrri hálfleik. En leikurinn í gær var leikur stóru mannana. Ómar og Sigurður áttu magnaðan leik undir körfunni, Ómar með 18 stig og 19 fráköst og Sigurður 14 stig og 18 fráköst. Saman tóku þeir 37 fráköst, tveimur meira en Njarðvíkurliðið. Þriðji stóru maðurinn, Jens Óskarsson átti líka fína innkomu þannig að Ómar og Sigurður fengu fína hvíld inn á milli.
Staðan er því 1-1 í þessu stórskemmtilega einvígi og næsti leikur í Grindavík á föstudaginn.