1 – 0 fyrir Grindavík!

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík vann fyrsta leik undanúrslitarimmu sinnar við Stjörnuna á heimavelli í kvöld og urðu lokatölur 83-74. 

 Ég ætla að skrifa um leikinn þótt ég hafi ekki verið á staðnum.  Ég heyrði í bróður mínum, sjálfum Gauta “the golden left foot” og ef ég fer með miklar fleipur í þessum pistli þá er bara við hann að sakast 🙂

Leikurinn var í járnum meira og minna allan tímann en við leiddum frá upphafi til enda en aldrei munaði mörgum stigum og um leið og við vorum komnir í eitthvað forskot þá komu Stjörnumenn til baka og það var víst ekki nema í blálokin sem niðurstaðan var öllum orðin ljós.

Bullock var atkvæðamestur okkar skv. tölfræðinni en hann rétt skreið í tvennuna góðu með lokafrákasti leiksins og endaði með 24 stig og 10 fráköst.

Lalli er heldur betur kominn í gang og heldur sínum góða leik áfram en í kvöld var hann næst stigahæstur með 16 stig og tók 7 fráköst.  Stal auk þess 2 boltum.  Einfaldlega frábært að vera búnir að endurheimta Lalla í sitt gamla form.

Giordan hefur oft leikið betur skv. tölfræðinni en hann var með 10 stig og gaf 7 stoðsendingar.  Hann tapaði reyndar 6 boltum sem er óvenjumikið á hans bæ.  En á móti stal hann 3 boltum og varði 2.  Svo kannski var hann bara þrælgóður í kvöld…..

Óli daðraði við 10 stigin með sínum 9 og skv. karfan.is þá varði hann glæsilega skot við mikinn fögnuð áhorfenda.

Miðherjanir okkar voru báðir með 7 stig og vörðu báðir 1 skot.  Siggi stal auk þess 4 boltum og var hæstur okkar manna í þeim ágæta flokki.  Siggi tók auk þess 8 fráköst og Ryan tók 6.

Fleiri orð ætla ég ekki að hafa um þennan leik.

Næsti leikur er á föstudagskvöld og má áfram búast við hörkuleik en ég spái því að allir leikir þessara liða í þessari rimmu, verði jafnir.

Mér skilst að mæting hafi verið góð í kvöld og vonandi fjölmenna Grindvíkingar í Garðabæinn á föstudag.

Áfram Grindavík!