Yfirlýsing frá stjórn Knattspyrnudeildar Grindavíkur

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Knattspyrnudeild Grindavíkur hefur orðið var við töluverðar athugasemdir við ýmsar framkvæmdir, já eða framkvæmdaleysi undanfarna daga á netmiðlinum Facebook á störfum okkar.  Þar erum við gangrýnd fyrir ýmsa hluti, m.a. að geta ekki tekið gagnrýni, fundarsköp, tímasetningu á fundi, boðun fundar, hverjir sátu fundinn og spurð af hverju við boðum hana eina af öllum þeim þjálfurum sem starfa hjá félaginu.

Ykkur til upplýsingar, þá fundar stjórn knattspyrnudeildar nánast undantekningalaust á fimmtudögum þegar við fundum. Þessi almenni stjórnarfundur sem haldinn var á þriðjudagskvöld var vegna þess að það var leikur hjá mfl. kk á miðvikudegi, mfl. kvk á fimmtudegi og svo er símamótið alla þessa helgi og var því tilvalið að boða til fundar á þriðjudeginum þar sem við áttum eftir að yfirfara framkvæmd leiks á móti Keflavík m.a. vegna hólfaskiptinga þar sem við áttum von á miklum fjölda og þurftum að vera undir það búnir.

Þeir sem mættu á þennan fund var að sjálfsögðu stjórn knd. Grindavíkur, þeir sem áttu heimagengt og svo boðaði yfirþjálfari yngri flokka á þennan fund þjálfara 4. og 5 flokks stúlkna og boðaði einnig yfirmann knattspyrnumála þar sem við vildum fara yfir ástæður þess af hverju afreksstarf þeirra, sem var hafið að hluta til en ekki af sama krafti og hjá strákunum eftir að hafa lagt áherslu á það í upphafi að það færi í gang á svipuðum tíma og starf drengjanna. Formaður deildarinnar boðar stjórnarmenn á fund og svo hefur framkvæmdastjóri boðað til fundar aðra þá aðila sem við þurfum að funda með, hvort sem það er meirihluti bæjarstjórnar, styrktaraðilar, þjálfarar okkar eða aðrir.  Það var vitað að hann gæti ekki setið þennan fund og þ.a.l. var þetta sett í hendurnar á yfirþjálfara yngri flokka að boða til fundarins. Þeir sem voru boðaðir til fundarins eru þeir sem munu hafa aðkomu og þurfa að eiga samskipti með hvernig staðið verði að afreksþjálfun þessarar stúlkna. Að þessu sinni þá kom erindið ekkert öðrum þjálfurum við, sem starfa innan félagsins og því með öllu ástæðulaust að kalla þá til á þennan fund.

Tilgangur þess að fá þau á fund, var eins og áður segir að yfirfara ástæður þess af hverju starfið var ekki hafið af fullum krafti. Niðurstaða komst í málið og á starfið að hefjast helgina eftir símamót. Að þessum fundi loknum töldum við að við höfðum tekið á þeim málum sem á þurfti að taka og leyst og verkefnið og komin af stað loksins, í það minnsta var það skilningur allra sem á þessum fundi voru og eru að vinna við þetta. Við teljum þann skilning enn vera til staðar hjá þeim sem sátu þennan fund og gagnrýni sú sem viðhöfð er svo vegna framkvæmdar fundarins ofl. í framhaldi af því er eitthvað sem við áttum okkur ekki á.

Knattspyrnudeildin er ekki viðkvæm fyrir gagnrýni og verður aldrei hafin yfir það að vera gagnrýnd. Ásamt því að vera að reka deildina sem félagasamtök þá erum við líka að reka þetta sem fyrirtæki með tæplega 180milljón króna veltu og reynum að gera það vel. Við teljum að vel flest fyrirtæki á landinu hefðu fundað með starfsmanni sínum eftir að hafa fengið opinberar ábendingar um að hlutir mættu betur fara hjá fyrirtækinu og þá reynt að finna leið til að laga það. Það var nákvæmlega það sem við gerðum og vildum gera það eins fljótt og unnt væri.

Við teljum okkur hafa tekið skref í rétta átt með unglingastarfið og þessu nýja starfi sem við tókum s.l. haust með ráðningu Yfirmanns knattspyrnumála og kom það einmitt fram í máli þjálfara 4. og 5. flokks stúlkna á fundinum að hún hefði verið mjög ánægð að fá hann inná æfingar hjá sér og er almenn ánægja með það meðal þjálfara okkar. Þetta starf er ekki fullmótað og við höfum gert mistök á þessari vegferð okkar en það er það sem við áttum von á, að við myndum reka okkur á einhversstaðar með nýtt starf í mótun. Við lærum af því og gerum þá betur eftir þann lærdóm.

Okkur í knattspyrnudeildinni þykir miður að umræðan hafi þurft að ná þessum hæðum sem hún hefur náð og vonum að við getum öll farið að stefna að því að fara í sömu átt með okkar félag og horft til framtíðar. Það er það sem við erum að gera og ætlum að halda áfram að gera eins lengi og okkur er treyst fyrir því.

Áfram Grindavík!

Kveðja,
Stjórn knattspyrnudeildar Grindavíkur