Viktoría Sól kemur úr Sandgerði og er 22 ára gömul. Hún hefur leikið 38 leiki í deild og bikar og skorað í þeim 2 mörk. Viktoría tók aftur fram skónna með Grindavík sl. sumar og stóð sig afar vel á miðjunni í Lengjudeild kvenna.
„Viktoría Sól stóð sig mjög vel hjá Grindavík á síðustu leiktíð og það eru frábær tíðindi að hún ætli að taka slaginn með okkur áfram,“ segir Steinberg Reynisson, formaður meistaraflokksráðs kvenna hjá Grindavík.
„Við finnum mikinn meðbyr með kvennafótboltanum í Grindavík og það verður frábært að hafa Viktoríu með okkur frá fyrsta degi á næsta keppnistímabili. Ég trúi því að hún eigi eftir að verða lykilleikmaður hjá Grindavík á næstu leiktíð.“
Knattspyrnudeild Grindavíkur lýsir mikilli ánægju með að Viktoría Sól verði áfram í herbúðum félagsins til næstu ára.
Áfram Grindavík!