Úrslitaleikur 3. deildar

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Úrslitaleikur 3.deildar karla fer fram á Grindavíkurvelli á morgun laugardag klukkan 14:00 þar sem Sindri frá Höfn og Ægir úr Þorlákshöfn mætast.  Var þessi leikstaður ósk þjálfara liðanna en það eru engnir aðrir en Alfreð Elías Jóhannsson og Óli Stefán Flóventsson.

Liðin eru bæði komin upp í 2.deild en það á bara eftir að útkljá hver er sigurvegarinn.

Alfreð og Óli Stefán voru í viðtali á fótbolti.net eftir að ljóst varð að lið þeirra fara upp um deild.

Alfreð:
Þetta var svo mikið rok að hálfa væri hellingur, maður hefur ekki kynnst svona í Grindavík einu sinni,” sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Ægis Þorlákshöfn sem komst í dag upp í 2. deild. 

Liðið vann 3-2 sigur á Magna í síðari leik liðanna í undanúrslitum en báðir leikirnir samanlagt enduðu 6-3.

„Það var rosalegt rok en þeir sem vildu þetta meira fóru áfram. Við erum helvíti sáttir með að það séu komnir tíu taplausir leikir í röð hjá okkur.” 

Allt á áætlun 
„Þegar ég tók við þessu liði fyrir tveimur árum var stefnan sett á að fara upp á tveimur árum. Hefðum við farið upp í fyrra hefði það verið bónus en við náðum því núna. Þetta er allt á áætlun.” 

Alfreð Elías kom BÍ/Bolungarvík upp í 1. deild 2010 en var rekinn til að rýma fyrir Guðjóni Þórðarsyni. Er hann ekkert hræddur um að það endurtaki sig og hann verði rekinn? 

„Ég veit ekki hvort ég verði rekinn. Maður er ekki byrjaður að fagna,” sagði Alfreð kíminn. „Nei við skulum vona að maður fái að halda starfinu eftir þetta.” 

Fögnum hressilega á laugardaginn 
Hvernig telur hann Ægi í stakk búinn fyrir 2. deildina og hvernig fótbolta spilar liðið? 

„Ef við ætlum að enda í topp sex í þeirri deild þurfum við að bæta við allavega tveimur til þremur. Það er klárt mál. Það þýðir ekki að fara í neitt fallkjaftæði, það er allt eða ekkert. Ég vil meina að við spilum mjög skemmtilegan fótbolta. Við reynum að láta boltann ganga en ekki vera uppi í loftinu. Við reynum að nota okkar fljóta kantara og target-senterinn.” 

Hvernig á svo að fagna þessu í kvöld? 

„Við ætlum að vera ósköp rólegir. Við ætlum að fagna þessu hressilega á laugardaginn. Úrslitaleikur deildarinnar er eftir og við ætlum að taka hann. Við ætlum okkur bara dolluna, það er ekkert annað í boði,” sagði Alfreð Elías.

 

Óli Stefán:
„Við erum ótrúlega sáttir núna,” segir Óli Stefán Flóventsson, spilandi þjálfari Sindra á Höfn í Hornafirði. Sindri komst í kvöld upp í 2. deildina með því að leggja Leikni Fáskrúðsfirði af velli samanlagt 6-2 í tveimur leikjum.

„Við settum okkur fimm árum plan fyrir þremur árum síðan og inn í því plani var að gera Sindra að stöðugu 2. deildarliði. Núna er gott að vera kominn í 2. deild, sérstaklega þar sem það er að koma ný aukadeild svo við erum að fara upp um tvær deildir.” 

Seinni leikurinn í kvöld endaði með jafntefli 1-1. 

„Leikurinn hérna var bara slagsmál. Þeir seldu sig virkilega dýrt og pressuðu okkur út um allan völl. Við erum allir merktir eftir þá. Þeir komust yfir í fyrri hálfleik og maður fann að það var pínu stress en svo tókum við yfir þetta.” 

Illa brennimerktur 
Sindramenn eru reynslunni ríkari eftir síðasta tímabil þegar þeir féllu út gegn KB. Sindri var þá í lykilstöðu eftir fyrri leikinn en tapaði illa á heimavelli og féll úr leik. 

„Maður er svo illa brennimerktur eftir ævintýrið í fyrra að síðustu tveir dagar hafa verið erfiðir. Það kenndi manni það að ekkert er öruggt í þessu. Við erum töluvert sterkari en í fyrra. Yngri leikmenn hafa bætt sig og margir spila lykilhlutverk sem komu inn í 2. flokk hjá mér fyrir tveimur árum. Til að mynda voru átta uppaldir Hofnfirðingar í byrjunarliðinu í dag.” 

„Þá hefur mjög öflugur Bosníumaður styrkt hópinn alveg gríðarlega, Fijad Mehanovic, hann hefur ekki gert annað en að skora fyrir okkur síðan hann kom til okkar í glugganum. Þetta er góð blanda og er eitthvað sem við komum til með að gera áfram, reyna að byggja upp á ungum strákum.” segir Óli Stefán. 

Fagnar tilkomu nýrrar deildar 
„Með því að fara upp erum við að komast inn í alvöru umgjörð í öllum leikjum. Það er mjög jákvætt. Það hefur oft á tíðum verið firmastíll í þessari 3. deild og ég tel að það séu 10-12 lið af þessum 30 liðum sem eiga ekkert að vera í þeirri umgjörð.” 

Þess vegna fagnar Óli Stefán því að nú á að fjölga deildum og mun ný tíu liða 3. deild vera sett á laggirnar næsta sumar. „Það var alveg kominn tími á að bæta við deild og hækka standardinn á þessu.” 

Stöndum ekki í vegi fyrir ungum leikmönnum 
Er Hornafjörður að framleiða fleiri efnilega fótboltamenn en áður? 

„Við erum búnir að nota þrjá 2. flokksstráka í byrjunarliðinu í sumar og svo erum við með stráka úr yngsta ári 2. flokks sem hafa verið á bekknum og að skila sér inn. Síðast í vor fór efnilegur leikmaður frá okkur til Grindavíkur, Alex Freyr Hilmarsson. Hann hefur verið að gera það gott þar og það er viðurkenning fyrir okkar starf,” segir Óli Stefán. 

„Við erum með marga Hofnfirðinga sem eru að skríða upp í efstu deildir og það er ákveðinn sigur fyrir okkar starf. Við hjálpum þeim að taka það skref þegar þar að kemur. Ég sé alveg fjóra til fimm stráka sem eiga eftir að koma sér upp í úrvalsdeildina, bæði getulega og hugarfarslega. Við hjálpum til ef við teljum að tíminn er réttur og stöndum ekki í vegi fyrir þeim. Það getur líka verið hættulegt að fara of snemma.” 

Kekic besti leikmaðurinn í deildinni 
Óli Stefán er á 37. aldursári og hefur verið spilandi þjálfari. Stefnir hann á að vera spilandi í 2. deildinni næsta sumar? 

„Ég veit það ekki. Upprunalega þegar ég kom austur ætlaði ég að taka tvö ár spilandi og fara svo að einbeita mér að þjálfuninni. Ég hef svo rosalegan áhuga á því sem ég er að gera núna og það getur vel verið að ég leggi skóna á hilluna eftir þetta tímabil. Svo er maður með kall eins og Sinisa Kekic fyrir framan mig sem er sex árum eldri en ég og er besti leikmaðurinn í deildinni. Það getur verið að maður haldi áfram,” segir Óli Stefán. 

Kekic er á 43 ára, fæddur 1969, en hefur fullan hug á því að halda áfram. „Hann hefur hjálpað mér rosalega í því sem við höfum verið að gera. Ekki bara sem leikmaður því hann miðlar vel af sér, tekur leikmenn afsíðis og segir þeim til. Hann hefur reynst algjör happafengur fyrir okkur hérna á Hornafirði.” 

„Hann hefur verið að leika allan hrygginn í sumar en eftir að við töpuðum fyrir Ægi í byrjun seinni umferðar ákvað ég að setja hann upp á topp til að fá meiri yfirvegun í sóknarleikinn. Það var eins og við manninn mælt og við höfum ekki hætt að skora síðan. Ef hann hefur ekki skorað sjálfur hefur hann verið að búa til,” segir Óli. 

„Hann segir það sjálfur að hann bara spilar þar sem ég þarf að nota hann. Hann er á bekknum ef ég þarf á honum að halda þar. Honum er alveg sama. Gæinn er 43 ára og nýtur dagsins í dag. Hann er flottur og langar að spila fótbolta, maður er ekkert að horfa í einhverja tölu þegar skrokkurinn er í lagi og getan til staðar.” 

„Ég er alveg klár á því að eins og kallinn er að spila þá geta einhver úrvalsdeildarlið notað hann ef hann væri notaður rétt. Ég er alveg klár á því. Ótrúlega góður fótboltamaður.” 

Viljum spila úrslitaleikinn í Grindavík 
Óli segir að það eigi ekki að fagna of mikið í kvöld enda er leikur við Alfreð Elías Jóhannsson og lærisveina í Ægi um sigur í deildinni næsta laugardag. Alfreð og Óli Stefán eru báðir úr Grindavík. 

„Við gleðjumst. Það er gaman en nú er það bara næsta verkefni. Þó þetta sé í höfn þá tekur við næsta verkefni og það er að vinna deildina. Ég keppi á móti einum besta vini mínum, Alla þjálfara hjá Ægi, á laugardaginn. Það er verið að tala um að hafa úrslitaleikinn í Grindavík. Það yrði draumur fyrir mig og Alla og eins Kela (Kekic) og taka úrslitalik á heimavelli.” 

„Við ætlum að klára þetta með sigri, það er alveg klárt,” segir Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Sindra.