Grindavík mætir sem kunnugt er Fram í Pepsideild karla á sunnudaginn kl. 16:00 í hreinum úrslitaleik um hvort liðið nær að halda sæti sínu í deildinni. Í kvöld verður sendur boðsmiði á leikinn í öll hús í Grindavík í formi leikskrár sem gildir sem aðgöngumiði fyrir 4.
Óskar Pétursson markvörður og fyrirliði hefur staðið vaktina með mikilli prýði í sumar í markinu hjá Grindavík og átt hvern stórleikinn á fætur öðrum. Er hann orðinn einn besti markvörður Pepsi-deildarinnar. Eftirfarandi viðtal birtist við hann í leikskránni:
Hversu mikilvægur er þessi leikur í þínum huga?
Þessi leikur er bara upp á líf og dauða en aftur á móti erum við í þessum fótbolta til þess að spila úrslitaleiki þó að hann sé nú kannski á vitlausum enda á töflunni. Hann er mjög mikilvægur fyrir okkur, alveg klárlega.
Er undirbúningurinn fyrir leikinn eitthvað öðruvísi en fyrir aðra leiki?
Nei í raun ekki. Kannski er eini munurinn að undirbúningurinn í okkar huga hófst þegar það var búið að flauta leikinn af gegn FH, strax inn í klefa. Maður vissi þá hvað maður þurfti að gera þannig að undirbúningurinn verður bara betri ef eitthvað er. En að öðru leyti mjög svipaður og fyrir aðra leiki.
Þið eruð þá ekkert sérstaklega spenntir að fara í þessi ferðalög sem fylgja 1.deildinni?
1. deildin að ári kemur bara ekki til greina, það er bara þannig. Við erum ekkert að hugsa um það.
Hvernig finnst þér tímabilið hafa verið?
Mér finnst ekki tímabilið hafa verið nægilega gott. Þó að við höfum ekki tapað mikið upp á síðkastið þá væri staðan öðruvísi ef við hefðum unnið fleiri leiki. Tímabilið hefur verið kafla-skipt sem eru ákveðin vonbrigði. En það er hinsvegar margt jákvætt sem við getum tekið með okkur inn í næsta tímabil, við höfum spilað nokkra góða leiki í sumar.
Hafa áherslur þínar eitthvað breyst eftir að þú tókst við fyrirliðabandinu í sumar?
Minn leikur hefur ekkert breyst en vissulega finnur maður fyrir ákveðnni ábyrgð sem er bara jákvætt. Þetta er bara metnaðarspark í rassinn að taka við bandinu.
Einhver skilaboð til stuðningsmanna?
Já ég skora á alla að ekki bara mæta heldur láta líka í sér heyra. Þegar við heyrum stemminguna í stúkunni þá myndast sjálfkrafa betri stemming hjá okkur á vellinum. Það er auðvitað skemmtilegra að spila fyrir framan marga áhorfendur í leik þar sem úrslitin skipta miklu máli.