Tómas Leó skrifar undir hjá Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Sóknarmaðurinn Tómas Leó Ásgeirsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við Grindavík og mun leika með félaginu í Lengjudeildinni á komandi tímabili. Tómas Leó er 23 ára gamall og hefur undanfarin tvö tímabil leikið með Haukum í 2. deild.

Tómas skoraði 13 mörk í 20 leikjum fyrir Hauka í 2. deild í sumar ásamt því að skora þrjú mörk í bikar. Tímabilið þar á undan gerði Tómas 14 mörk í 2. deildinni. Tómas Leó er uppalinn á Hornafirði og lék í nokkur tímabil með Sindra í bæði annarri og þriðju deild karla. Alls hefur Tómas skorað 62 mörk í 140 leikjum í deild og bikar á ferlinum.

„Ég er mjög ánægður með að ganga til liðs við Grindavík. Þetta er metnaðarfullur klúbbur sem hefur reynslu af því að vera í fremstu röð. Ég er mjög hrifinn af þeim hugmyndum sem þjálfarateymið hafði fram að færa til framtíðar hjá Grindavík og þeim metnaði sem er til staðar hjá klúbbnum. Ég tel þetta vera gott skref á mínum ferli að ganga til liðs við Grindavík,“ segir Tómas Leó eftir að hafa skrifað undir samning við Grindavík.

„Tómas er ungur og spennandi leikmaður sem við höfum fylgst með í nokkurn tíma. Ég tel að hann muni styrkja okkar lið í fremstu víglínu og að hann geti þróað áfram sinn leik hjá félaginu. Ég hlakka til að byrja að vinna með Tómasi og tel að hann muni falla mjög vel inn í okkar leikmannahóp,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Grindavíkur.

Knattspyrnudeild Grindavíkur býður Tómas Leó velkominn til félagsins og væntum við mikils af þessum upprennandi leikmanni.

Áfram Grindavík!