Knattspyrnudeild Grindavíkur hefur náð samkomulagi við portúgalska leikmanninn Tiago Fernandes um að leika með liðinu næstu tvö keppnistímabil. Tiago er 25 ára gamall miðjumaður sem lék við góðan orðstír hjá Fram tímabilin 2018 og 2019.
Tiago hefur leikið 49 leiki í deild og bikar á Íslandi og skorað 6 mörk. Honum er ætlað stórt hlutverk á miðjunni hjá Grindavík á næstu leiktíð. Tiago hittir fyrir hjá Grindavík þá Guðmund Magnússon sem hann lék með hjá Fram árið 2018 og Ólaf Brynjólfsson sem var aðstoðarþjálfari hjá Fram sama ár. Tiago er væntanlegur til æfinga í janúar á nýju ári.
„Við höfum lengi haft augastað á Tiago sem er mjög frambærilegur knattspyrnumaður – góður á boltanum og virkilega klókur leikmaður,“ segir Sigurbjörn Hreiðarsson, þjálfari Grindavíkur. „Hann kemur til með að styrkja okkur á miðsvæðinu. Hann verður frábær viðbót við okkar leikmannahóp sem er farinn að taka á sig mynd og við væntum mikils af Tiago á næstu árum.“
Knattspyrnudeild Grindavíkur býður Tiago velkominn til félagsins!