Þurfum ekki að hræðast neitt

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Nú eru 30 tímar í leik Grindavíkur og Fram og menn farnir að setja sig í gírinn.  Í leikskrá sem kemur út í dag er viðtal við þjálfara liðsins.

Undirbýrð þú liðið eitthvað öðruvísu fyrir þennan leik heldur en aðra í sumar?
Nei maður reynir að haga undirbúningnum eins fyrir alla leiki. Ekkert að gera meira úr þessum leik en öðrum. En leikmenn skilja auðvitað alvöruna á bak við leikinn gegn Fram og gera sér fyllilega grein fyrir henni þannig að ég reyni að halda rútínunni þannig að umhverfið á æfingunum sé eins.

Lítur þú á leikinn sem úrslitaleik þó tvær umferðir séu eftir?
Við vitum alveg hvað gerist ef við vinnum, þá er þetta alveg klárt. Menn hafa alveg vitað í síðustu umferðum að þetta gæti orðið Leikurinn þar sem mikið lægi undir. Við áttum erfiða leiki gegn KR, FH, Stjörnunni og ÍBV í lokaumferðinni þannig að ef Fram hefði farið að vinna leiki þá væri þessi leikur mjög mikilvægur. Jafntefli við FH hefði ekki breytt miklu sem inngang í leikinn þar sem Fram er með hagstæðara markahlutfall. Þannig að vissum fyrir nokkrum umferðum að þetta væri leikurinn sem við þyrftum að vinna. Menn eru því búnir að gera sér grein fyrir því hvernig staðan og ég hef ekki trú á öðru en sýni það sem þarf til að vinna. Ef við t.d. sýnum jafn góðan leik og gegn Stjörnunni og KR þá get ég ekki beðið um meira.
Þó að tapið gegn FH hafi verið slæmt þá var leikurinn ekki eins slæmur og mönnum fannst strax eftir leikinn. Við fengum á okkur þessi þrjú mörk sem við gátum komið í veg fyrir en annars var ekkert mikið í leiknum sem benti á að þeir ættu að vera þremur mörkum yfir., leikurinn var ekki það ójafn.
Við vorum búnir að spila 7 leiki án þess að tapa þannig að miðað við það sem undan var gengið þá hefur þetta ekkert verið neitt slæmt. Við þurfum því ekkert að vera neitt svartsýnir eða taugaóstyrkir fyrir leikinn og ef við spilum eins og við höfum sýnt upp á síðkastið þá sjáum við hversu langt það dugar.

Er eitthvað sérstakt sem þú óttast í leik Fram?
Fram var náttúrulega komnir í þá stöðu að þeir þurftu að fara vinna leiki til að halda sér uppi og því er komin sú umræða að þeir séu svona góðir og við þurfum að passa sérstaklega upp á ákveðna leikmenn í þeirra liði. En við vorum að spila á móti Stjörnunni sem eru með tvo af bestu leikmönnum mótsins, Halldór Orra og Garðar, KR og FH með allar sýnar stjörnur og enginn talaði að við þyrftum að passa sérstaklega upp á þá. Við eigum ekki að þurfa hræðast neitt, það þarf enginn að segja mér að Fram eigi mun betri leikmenn en KR eða FH.
Fram hefur breytt leik sínum frá því fyrr í sumar þegar þeir spiluðu meira boltanum en hafa fært sig aftar á völlinn og bíða eftir mistökum annara liða og beita svo skyndisóknum, ekkert ósvipað leik Stjörnunnar.

Getur þú stillt upp þína sterkasta liði á sunnudaginn?
Það eru nær allir heilir já. Paul og Bogi reyndar báðir meiddir en Orri, Alexander og Haukur Ingi orðnir nærri því góðir. Matthías verður í leikbanni en menn settu einhver spuningarmerki af hverju við tókum Jóa Helga og Alexander út af gegn FH. Ástæðan var bara að báðir voru í hættu að ef þeir hefðu fengið gult spjald í leiknum þá hefðu þeir tekið út leikbann gegn Fram, leikurinn gegn FH var í raun tapaður á þeim tímapunkti sem við tókum þá út.

Einhver skilaboð til stuðningsmanna?
Við viljum bara fá sem flesta á völlinn og styðja við okkur. Með jákvæðum stuðningi þá líður leikmönnum betur á vellinum og meiri líkur á því að þeir sýni sitt besta.