Þröstur Mikael til liðs við Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Dalvíkingurinn Þröstur Mikael Jónasson mun leika með Grindavík í Lengjudeildinni í sumar en hann hefur gert samning við félagið til út tímabilið 2022. Þröstur er miðju- og varnarmaður að upplagi og lék með Grindavík á miðjunni í sigurleik gegn Keflavík í fótbolta.net mótinu um síðustu helgi.

„Við erum mjög ánægðir með að hafa samið við Þröst sem er kraftmikill og orkumikill leikmaður,“ segir Sigurbjörn Hreiðarsson, þjálfari Grindavíkur. „Þröstur gefur okkur fleiri kosti á miðjusvæðinu og getur einnig leyst varnarstöður vel. Hann hefur staðið sig mjög vel á æfingum með Grindavík á síðustu vikum og eflir breiddina í liðinu.“

Þröstur Mikael er 21 árs gamall og hefur leikið 94 leiki með uppeldisfélaginu sínu Dalvík/Reyni. Þess má geta að Þröstur er sveitungi þjálfarans Sigurbjörns sem ólst upp á Dalvík.

Knattspyrnudeild Grindavíkur býður Þröst Mikael velkominn til félagsins!