Stefán Ingi Sigurðarson mun leika með Grindavík næstu vikurnar en hann kemur að láni frá Breiðabliki. Stefán Ingi er 19 ára gamall framherji og hefur verið að banka á dyrnar hjá meistaraflokki Breiðabliks.
Stefán er stór og stæðilegur framherji sem skoraði fyrir Blika í sigri gegn Keflavík í Mjólkurbikarnum á dögunum. Hann er einn efnilegasti framherji landsins í öðrum flokki. Hann passar vel inn í ungan og spennandi leikmannahóp hjá Grindavík.
Með komu Stefáns eykst breiddin á efri hluta vallarins hjá Grindavíkurliðinu en nokkrir leikmenn hafa verið að glíma við meiðsli. Guðmundur Magnússon verður frá keppni vegna meiðsla næstu 2-3 vikurnar og því var mikilvægt að fá inn framherja sem gæti hjálpað liðinu á efsta þriðjungi vallarins.
Knattspyrnudeild Grindavíkur býður Stefán Inga velkominn til Grindavíkur!