Skemmtilegir leikir í dag

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Grindavík mætir KR á KR-vellinum í dag klukkan 17:15 í 19.umferð Pepsi deild karla.  Karlaliðið í körfubolta á einnig leik í dag gegn Stjörnunni í Reykjanesmótinu.

Leikirnir á KR-vellinum hafa oft á tíðum verið hin besta skemmtun og Grindavík hefur gengið ágætlega þar undanfarin 10 ár þó heldur hefur hallað á okkar menn í síðustu leikjum.

KR mátti þola tap í síðasta leik og leggja því allt í þennan leik.  Grindavík hinsvegar spilaði einn sinn besta leik í sumar gegn Stjörnunni í síðustu umferð og ef þeir halda uppi sömu baráttu og spilamennsku þá eru allir vegir færir.  
Leikjahæsti leikmaður Grindavíkur, Óli Stefán Flóventsson, vill allavega meina að Grindavík eigi fína möguleika enda koma Grindvíkingar alltaf tvíefldir þegar þeir mæta í vesturbæinn.  

Eitthvað er um að menn séu á meiðslalista fyrir leikinn í kvöld. Bogi Rafn tekur væntanlega ekki meira þátt í sumar/haust vegna þar sem hann fór úr axlalið.  Paul McShane, Guðmundur Bjarnason og Jamie McCunnie sömuleiðis meiddir og óvíst um Hauk Inga.

Á leiðinni heim er upplagt að koma við í Ásgarði, Garðabæ, og sjá Grindavík mæta Stjörnunni í Reykjanesmótinu í körfubolta en leikurinn hefst klukkan 19:15