Sigurjón í 100 leiki fyrir Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Sigurjón Rúnarsson náði þeim áfanga fyrr í sumar að leika sinn 100. leik fyrir Grindavík í meistaraflokki í deild- og bikarkeppni. Sigurjón verður 23 ára gamall síðar í ár og er hann yngsti leikmaðurinn í sögu félagsins til að ná þessum áfanga hjá karlaliði Grindavíkur.

Sigurjón lék sinn fyrsta leik fyrir félagið í meistaraflokki haustið 2017 þegar hann lék gegn Fjölni í lokaleik tímabilsins í úrvalsdeildinni. Í kjölfarið hefur hlutverk hans vaxið innan félagsins og er hann í dag einn af lykilmönnum liðsins og leikur stöðu miðvarðar.

„Við óskum Sigurjóni innilega til hamingju með þennan áfanga og vonum að hann verði fljótur að ná 200 leikjum með félaginu. Sigurjón er Grindvíkingur í húð og hár, ber hagsmuni félagsins fyrir brjósti og er frábær fyrirmynd fyrir iðkendur félagsins,“ segir Haukur Guðberg Einarsson, formaður Knattspyrnudeildar Grindavíkur.

Knattspyrnudeild Grindavíkur óskar Sigurjóni til hamingju með þennan áfanga. Haukur formaður færði Sigurjóni áritaðan skjöld frá félaginu fyrir síðasta heimaleik ásamt glæsilegum blómvendi frá Guggu í Blómakoti.

Áfram Grindavík!
💛💙