Sigurjón framlengir við Grindavík til tveggja ára

KnattspyrnaKnattspyrna

Varnarmaðurinn Sigurjón Rúnarsson hefur skrifað undir nýjan samning við Grindavík og mun leika áfram með liðinu næstu tvö keppnistímabil. Sigurjón er tvítugur og lék 19 leiki með Grindavík í deild og bikar í ár. Hann skoraði jafnframt tvö mörk í sumar.

Sigurjón hefur þrátt fyrir ungan aldur fest sig í sessi sem einn af lykilleikmönnum Grindavíkur og leikur í hjarta varnarinnar. Hann er Grindvíkingur í húð og hár – leikið alls 53 leiki með Grindavík í deild og bikar á ferlinum.

„Það er gleðiefni að Sigurjón verði áfram í herbúðum Grindavíkur. Þetta er leikmaður sem býr yfir miklum hæfileikum og getur svo sannarlega orðið frábær miðvörður þegar fram líða stundir. Hann hefur tekið miklum framförum í sumar, er feikilega vinnusamur og hefur mikið og stórt Grindavíkurhjarta,“ segir Sigurbjörn Hreiðarsson, þjálfari Grindavíkur.

Knattspyrnudeild Grindavíkur fagnar því að einn af lykilmönnum liðsins hafi ákveðið að vera áfram hjá liðinu og taka slaginn í Lengjudeildinni á næstu leiktíð. Markmiðið er sannarlega að vera í toppbaráttunni á næstu leiktíð og berjast við að komast upp í efstu deild. Áframhaldandi vera Sigurjóns hjá Grindavík eru því gleðitíðindi.

Frekari frétta af leikmannamálum Grindavíkur er að vænta á næstu dögum.