Sanngjarn sigur í Keflavík

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Grindavík gerði góða ferð til nágrannana og komu þaðan með 3 stig.

Eina breytingin frá jafnteflisleiknum gegn Breiðablik í síðustu umferð var að Bogi Rafn kom inn á miðjuna og Magnús vermdi bekkinn til að byrja með.  Byrjunarliðið var því skipað eftirfarandi leikmönnum.  Óskar, Óli, Jamie, Matthías, Alexander, Bogi, Orri, Scotty, Derek, Winters og Jóhann.

Grindavík var betri aðilinn á fyrstu mínútunum sem endaði með marki frá Orra á 19. mínútu. Boltinn barst þá yfir teiginn á Robert Winters sem gaf út í teig á Orra sem skoraði fram hjá Ómari í marki Keflavíkur.  Keflvíkingar jöfnuðu stuttu seinna.  Féll þá einn leikmaður fyrir fætur Jamie og dæmdi Þóroddur aukaspyrnu rétt fyrir utan teig, vinstra meginn.  Guðmundur Steinarsson skaut í tveggja manna varnarvegg og fipaðist Óskar við það og boltinn fór í markið.  Á þessum tímabili í leiknum var Keflavík örlítið betri en Grindavík tók aftur yfirhöndina undir lok fyrri hálfleiks en náði ekki að bæta við marki. 

Seinni hálfleikurinn var einnig hin besta skemmtun.  Nokkuð harka komst í leikinn og stóðu okkar menn vel í þeirri baráttu.  Óli Baldur, Haukur Ingi og Magnús komu inn á og var ljóst að Ólafur og þjálfarateymi hans ætluðu sér öll þrjú stigin.  Þau komu svo þegar Robert Winters gaf háan bolta yfir varnarmenn Keflavíkur á Óla Baldur sem sigraði Guðjón í skallaeinvíginu og átti frábæran skalla sem Ómar náði ekki að verja.  Glæsilegt mark og frábær endir á góðum leik. Óli Baldur hefur átt við meiðsli að stríða en ætlaði sér að ná þessum leik. “Ég spila þennan leik og læt svo læknana kíkja á mig á þriðjudag” sagði hann á dögunum.   Þó liðið allt hafi staðið sig mjög vel í leiknum þá er vert að minnast á tvo leikmenn. Óskar átti enn einn stórleikinn í markinu og er að sanna sig sem einn af betri markmönnum landsins.  Matthías spilaði í bakverðinum í kvöld eins og síðustu leiki og er farinn að finna sig vel þar.  Bæði er hann að skila varnarvinnunni vel og sóknarlega kemur hann einnig sterkur inn með góðar langar sendingar og gegnumbrot.

Stigin 3 voru geysimikilvæg, sérstaklega í ljósi þess að liðin fyrir neðan náðu ekki sigrum.  Grindavík er þar með komið með 16 stig og farin að nálgast liðin í miðri deild.  Fimm stig í síðustu þremur leikjum staðreynd og nú er málið að halda dampi og detta ekki í þá gryfju að slaka á eftir nokkra góða leiki.  Sálfræðingurinn Haukur Ingi minntist á þetta í viðtali og er óskandi að vinni í þessu.

Næsti leikur er gegn Víking eftir viku hér í Grindavík þar sem 3 stig væru vel þegin.

Viðtal við Óskar á sport.is
Viðtal við Ólaf á fotbolti.net