Samið við sjö leikmenn meistaraflokks kvenna

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Knattspyrnudeild Grindavíkur hefur samið við sjö leikmenn um að leika áfram með liðinu. Eru þetta frábær tíðindi fyrir kvennaboltann í Grindavík!

Ása Björg Einarsdóttir er á 17. ári og er uppalinn Grindvíkingur. Ása spilaði sinn fyrsta meistaraflokks leik í fyrra í Inkasso deildinni. Hún hefur tekið miklum framförum undanfarið og á framtíðina fyrir sér.

Birgitta Hallgrímsdóttir 22 ára. Hún kom frá Keflavík í upphafi tímabilsins í fyrra. Hún spilaði þá með okkur 18 leiki í deild og bikar og skoraði í þeim leikjum 4 mörk. Birgitta spilar í sömu markaskónum núna en hún skoraði m.a. öll 5 mörkin í 5-0 bikarsigri okkar á Fram í upphafi þessa tímabils.

Birta Kjærnested Jóhannsdóttir er 21 árs og spilaði síðast með liði FH. Hún hefur verið í smá pásu frá fótbolta en er núna aftur mætt í takkaskóna og komin til okkar í Grindavík. Hlökkum við til samstarfsins.

Írena Björk Gestsdóttir er 22 ára og kemur frá Selfossi. Hún kom til Grindavíkur í fyrra í upphafi tímabilsins og spilaði með okkur 18 leiki í deild og bikar. Það er okkur á nægjuefni að hún hafi ákveðið að rúnta suðurstrandaveginn áfram og spila áfram í gula búningnum.

Júlía Ruth Thasaphong er á 17. ári og er uppalinn Grindvíkingur. Hún spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2018 í Pepsi deild kvenna. Júlía er þekkt fyrir að gefa aldrei tommu eftir á vellinum.

Margrét Hulda Þorsteinsdóttir er 21 árs og hefur spilað með Grindavík frá árinu 2018. Magga kom þá frá Keflavík. Magga varð fyrir því óláni að meiðast illa á hné um mitt síðasta tímabil en er mætt aftur á völlinn. Magga er nú þegar búin að skora eitt mark á þessu tímabili.

Sigurbjörg Eiríksdóttir er 19 ára uppalin Grindvíkingur. En hún fór aðeins yfir til nágranna okkar í Keflavík og var þar frá 2016-18. Hún kom svo yfir til okkar í fyrra og spilaði með okkur 8 leiki í deild og bikar. Það er mjög gott að vera búin að endurheimta hana í gula búninginn.

Næsti leikur hjá stelpunum er gegn Álftanesi á fimmtudagskvöld!