Aðalfundur Knattspyrnudeildar fyrir starfsárið 2021 fór fram í gærkvöld í Gula húsinu. Á fundinum var kynntur ársreikningur deildarinnar fyrir árið 2022 ásamt því farið var yfir skýrslu stjórnar og nefna og fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
Rekstur deildarinnar er í góðu horfi en 1,3 mkr.- hagnaður var af rekstri Knattspyrnudeildar Grindavíkur á árinu 2021, Bæði tekjur og gjöld jukustu nokkuð á milli ára. Alls voru rekstartekjur deildarinnar 177 mkr.- á árinu 2021 en rekstargjöld voru 176 mkr.- Eignir félagasins í árslok voru samtals tæplega 24 mkr.- og handbært fé í árslok um 10,6mkr.-
Ársreikning Knattspyrnudeildar Grindavíkur má nálgast í rafrænu formi hér.
Gunnar Már Gunnarsson var endurkjörinn formaður deildarinnar og er hann nú að hefja sitt fimmta starfsár sem formaður. Þau tímamót urðu í gær að Petra Rós Ólafsdóttir var kjörin í stjórn deildarinnar en hún er fyrsta konan til að taka sæti í stjórn deildarinnar. Petra hefur verið mjög virk í starfi deildarinnar um árabil, fyrst sem leikmaður og núna á undanförnum árum í bæði unglingaráði og meistaraflokksráði kvenna. Hún tekur Jóhanns Helgasonar sem færði sig yfir í varastjórn deildarinnar.
Stjórn Knattspyrnudeildar Grindavíkur er eftirfarandi:
Gunnar Már Gunnarsson, formaður
Helgi Bogason
Haukur Einarsson
Hjörtur Waltersson
Petra Rós Ólafsdóttir
Ægir Viktorsson
Þórhallur Benónýsson
Varastjórn
Ingvar Magnússon
Jóhann Helgason
Rúnar Sigurjónsson
Steinberg Reynisson
Aðstöðumál fyrirferðamikil í umræðu
Á fundinum var farið yfir bæði skýrslu stjórnar og skýrslu unglingaráðs. Í báðum þessum skýrslum voru aðstöðumál fyrirferðmikil í umræðunni. Í ræðu Gunnars Má Gunnarssonar, formanns, segir meðal annars.
„Hver einasta króna sem fer í framlag til íþrótta skilar sér margfalt til baka. Sænska knattspyrnusambandið segir á sinni heimasíðu að hver króna sem fer í íþróttastarf skili sér tífalt til baka til samfélagsins með einum eða öðrum hætti.
Við vonum að sú bæjarstjórn sem verður kosin 14. maí n.k. sýni þessu skilning og fari í frekari framkvæmdir hér á svæðinu. Það er óhætt að segja að það sé löngu kominn tími á það. Einhver verður loforðalistinn og hvet ég ykkur sem unna knattspyrnunni til þess að spyrja frambjóðendur flokkana hvað þeir ætla að gera fyrir knattspyrnudeildina og hvenær þeir ætla að gera það. Fyrir mér snýst þetta um þjónustu við samfélagið og er tengibyggingin sem á að reisa við Hópið að mínu viti þjónustuhús fyrir börn, foreldra, eldri borgara, iðkendur, vallarstjóra, þjálfara og aðra gesti. Minnið frambjóðendur á það að íþróttabærinn Grindavík er enn að notast við fjöldan allan af gámum sem þjónustuhús, gámar sem eru bæði kaldir og leka. Að það þurfi meira en áratug til að sannfæra bæjarfulltrúa um ágæti þess að fara í þessi verkefni er óskiljanlegt með öllu.
Við vonum innilega að það verði breyting á, með nýrri bæjarstjórn, að fjármunir verði settir í framkvæmdir hér á svæðinu eins fljótt og auðið er.“
Ragnheiður Þóra Ólafsdóttir, formaður unglingaráðs, tók í svipaðan streng í sinni ræðu: „Það málefni sem brennur helst á okkur í unglingaráði er ennþá það sama og ég nefndi í skýrslu minni árið 2018, 2019 og 2020. Það er æfingaaðstaðan okkar. Við sitjum því miður ekki við sama borð og önnur lið hvað það varðar. Það er bara ansi erfitt að eiga ekki heimavöll frá hausti og fram á vor. Þann 4. desember s.l pirraði ég mig á þessu aðstöðuleysi inni á minni persónulegu fésbókarsíðu. Viti menn, upphófst mikil og heit umræða í kjölfarið. Sú umræða hélt manni alveg við efnið allt laugardagskvöldið. En umræðan er komin af stað og af hinu góða, það er jú ansi stutt í kostningar. Ég set líklega stórt X við þann flokk sem heitir okkur betri aðstöðu.“
Knattspyrnudeild Grindavíkur vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hafa komið að starfi deildarinnar á liðnu starfsári og förum við jákvæð og bjartsýn inn í nýtt tímabil.