Ólafur kemur á láni til Grindavíkur

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Varnarmaðurinn Ólafur Guðmundsson hefur gengið til liðs við Grindavík og mun leika með félaginu í sumar í Lengjudeild karla í fótbolta. Ólafur er 19 ára gamall og kemur á láni út tímabilið frá uppeldisfélagi sínu Breiðablik.

Ólafi er ætlað stórt hlutverk hjá Grindavík í sumar í stöðu vinstri bakvarðar hjá félaginu. Þessi ungi en stæðilegi varnarmaður á að baki 8 yngri landsleiki með U17 og U18 landsliðum Íslands.

„Við erum afar ánægðir með að fá Ólaf til okkar. Þetta er einn efnilegasti varnarmaður landsins sem getur leikið nær allar stöður í vörninni. Við höfum mikla trú á að Ólafur geti hjálpað okkur í að ná markmiðum okkar í sumar og það er ánægjuefni að fá hann til liðs við okkur snemma á undirbúningstímabilinu,“ segir Sigurbjörn Hreiðarsson, þjálfari Grindavíkur.

Ólafur er kominn með leikheimild með Grindavík og getur tekið þátt í fyrsta leik félagsins í Lengjubikarnum gegn HK í Kórnum á morgun. Leikurinn hefst kl. 11:30.

Knattspyrnudeild Grindavíkur býður Ólaf Guðmundsson velkominn til Grindavíkur og hlökkum við til að sjá leikmanninn í gulu & bláu.