Aðalfundur knattspyrnudeildar UMFG fyrir árið 2011 var haldinn í gærkvöldi og var vel mætt eða 47 manns.
Jónas K. Þórhallsson var kjörinn nýr formaður knattspyrnudeildarinnar en hann er ekki ókunnur því embætti en hann gengdi þeirri stöðu síðast 2006 og var nú síðast varaformaður deildarinnar.
Tveir hættu í stjórn, Þorsteinn Gunnarsson og Símon Alfreðsson en í þeirra stað komu Rúnar Sigurjónsson og Þórhallur Benónýsson. Aðrir í stjórn eru Bjarni Ólason, Sigurður Halldórsson, Sveinn Guðjónsson og Ragnar Ragnarsson.
Ársskýrsla stjórnar og unglingaráðs var lögð fram á fundinum. Ársreikningar verða lagðir fram á framhaldsaðalfundi í febrúar. Lífleg umræða var á fundinum um hin ýmsu mál fótboltans, m.a. um leikmannamál, mannvirkjamál og fleira.
Í lok fundarins var eftirfarandi ályktun samþykkt:
„Aðalfundur knattspyrnudeildar UMFG fyrir árið 2011, haldinn í Gula húsinu 1. nóvember 2011, ítrekar ályktun sína frá síðasta aðalfundi, þar sem segir:
Aðalfundurinn skorar á bæjaryfirvöld að ráðast sem fyrst í að reisa búnings- og félagsaðstöðu við Hópið og stúkuna. Minnt er á að 100% endurgreiðsla virðisauka af vinnu við íþrótta- og skólamannvirki gildir út þetta ár. Knattspyrnudeildin er tilbúin til þess að gera samning við Grindavíkurbæ og taka að sér byggingu á búnings- og félagsaðstöðu ef það mætti verða til þess að flýta framkvæmdum.”