Nýverið var samstarfssamningur milli Knattspyrnudeildar Grindavíkur og Nettó endurnýjaður. Merki Nettó verður á nýjum búningum yngri flokka og meistaraflokka félagsins ásamt því að merki Nettó verður sýnilegt á heimavelli Grindavíkur.
„Það er virkilega ánægjulegt að finna fyrir þessum öfluga stuðningi sem við njótum frá Nettó. Þetta er öflugt fyrirtæki sem er umhugað um að styrkja íþróttastarfsemi á sínu nærsvæði. Samstarfið við Nettó hefur verið farsælt og það er mikið ánægjuefni að þetta góða samstarf haldi áfram,“ segir Haukur Guðberg Einarsson, formaður Knattspyrnudeildar Grindavíkur.
Haukur Guðberg og Sebastian Boguslaw Rebisz, verslunarstjóri Nettó í Grindavík, undirrituðu nýjan samstarfssamning á dögunum í verslun Nettó í Grindavík.
Knattspyrnudeild Grindavíkur vill koma á framfæri kærum þökkum til Nettó fyrir frábært samstarf og stuðning í gegnum árin.
Áfram Grindavík!