Grindavík hefur samið við slóvenska leikmanninn Marko Vardic og mun hann leika með félaginu í Lengjudeild karla á næstu leiktíð. Marko leikur stöðu miðvarðar en getur einnig leikið sem djúpur miðjumaður. Marko er 27 ára gamall og lék á síðasta tímabili með slóvenska félaginu NK Triglav.
Marko kom á reynslu til Grindavíkur núna í nóvember og heillaði þjálfara og forráðamenn félagsins. Hann er hávaxinn, gríðarlega snöggur og mikill íþróttamaður. Marko hefur einnig leikið í Þýskalandi og í Belgíu á ferli sínum.
„Ég er mjög ánægður með að fá Marko til liðs við okkur. Þetta er flottur íþróttamaður á besta aldri sem hefur eiginleika sem við þurfum á að halda í okkar lið. Hann er öflugur varnarmaður, með mikla hlaupagetu og getur leyst margar stöður á vellinum. Marko féll strax vel inn í hópinn og er flottur persónuleiki,“ segir Helgi Sigurðsson, þjálfari Grindavíkur.
Knattspyrnudeild Grindavíkur býður Marko Vardic velkominn til félagsins. Hann er væntanlegur til Íslands í byrjun janúar og mun þá hefja æfingar með félaginu.
Áfram Grindavík!