Eftir brösulega byrjun á fótboltasumrinu, þar sem Grindvíkingar sátu í fallsæti með 8 stig, var komið að ögurstundu síðastliðinn föstudag. Botnlið Tindastóls kom í heimsókn og fyrir leikinn hefðu sennilega margir litið á hann sem skyldusigur. Eina mark fyrri hálfleiks var þó Skagfirðinga og staðan 0-1 í hálfleik.
En þá sögðu okkar menn hingað og ekki lengra og hreinlega völtuðu yfir Stólana í seinni hálfleik. Áður en yfir lauk urðu mörkin alls fimm og glæsilegur 5-1 sigur staðreynd. Enn er þó löng leið á toppinn en við þennan sigur lyftum við okkur upp í 9. sæti og getum vonandi byggt áfram á þessu, bæði sjálfstraust og fleiri sigra. Næsti leikur er einmitt á móti liðinu í 10. sæti, Selfossi, og er leikurinn á þeirra heimavelli annað kvöld, þriðjudag, kl. 19:15
Sport TV var á vellinum og sýndi leikinn í beinni útsendingu og hægt að er sjá öll mörkin ásamt helstu tilþrifum úr leiknum á Fótbolti.net . Það er enginn annar en goðsögnin Adolf Ingi Erlingsson sem lýsti leiknum.