Krýsavíkurleiðin farin

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Grindavíkurliðinu ætlar að reynast erfitt að tryggja sér sæti meðal bestu en þetta er ennþá í okkar höndum

Vel var mætt á völlinn í kvöld og fínn stuðningur lengst af.  Byrjunarliðið var skipað eftirfarandi leikmönnum:

Óskar í markinu, Orri og Ólafur hafsentar og Alexander og Jósef bakverðir.  Á miðri miðjunni voru Jamie og Jóhann. Fyrir framan þá Óli Baldur, Scotty og Haukur Ingi og Magnús fremstur.

Nokkuð sterkur vindur var á annað markið og Grindavík fékk hann í fangið í fyrri hálfleik.  Bæði liðin fóru þá varlega og ætluðu ekki að fá á sig mark.  En gestunum tókst það hinsvegar þegar Orri Gunnarsson skoraði eftir flott einstaklingsframtak Steven Lennon. 

Grindavík átti eftir það nokkur ágæt færi og voru Jóhann og Alexander næst því að skora.  Hinum meginn á vellinum bjargaði Óskar meistarlega eins og hann átti eftir að gera nokkrum sinnum aftur í leiknum.

0-1 í hálfleik og Grindavík með vindinn í bakið næstu 45 mínúturnar.  Á 57. mínútu var Óli Baldur nærri því búinn að jafna leikinn en Ögmundur varði vel. Tíu mínútum seinna skoraði Magnús Björgvinsson glæsilegt mark sem hann bjó til sjálfur, ekkert ósvipað og markið gegn FH.  En því miður telur þetta mark lítið þar sem okkar menn slökuðu á eftir markið og Fram sótti meira. Eftir nokkrar hornspyrnur og hættuleg færi skoraði Hlynur Atli Magnússon og þar með sat. Fram sigraði leikinn 2-1 og höfðu sætaskipti við Grindavík.

Staðan í töflunni er þannig að Grindavík er með 20 stig en 3 lið, Keflavík, Þór og Fram með 21 stig.  Grindavík þarf því að fara til eyja næsta laugardag og sækja þrjú stig þangað.  Grindavík hefur oft reddað sér á síðustu metrunum og hef ég fulla trú á því að það endurtaki sig núna.  Jafntefli dugar reyndar ef Keflavík sigrar Þór með tveimur mörkum í lokaumferðinni en það þýðir ekkert að treysta á aðra.  Sigur gegn ÍBV og málið er dautt.

Leikurinn á laugardaginn er klukkan 14:00 og því tilvalið að heimsækja eyjuna fögru og sjá sögulegan viðburð þegar Grindavík heldur sér uppi.

 

Mynd Torfi Jóhannsson fyrir fótbolti.net