Kristófer Páll til liðs við Grindavík

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Kristófer Páll Viðarsson hefur samið við Grindavík og gengur hann til liðs við Grindavík frá Reyni Sandgerði. Kristófer Páll er 25 ára gamall vængmaður sem ólst upp á Austfjörðum en hefur meðal annars leikið með Keflavík, Selfoss, Fylki og Leikni F.

Kristófer semur við Grindavík til loka tímabilsins 2024 og mun taka virkan þátt í uppbyggingu á liði Grindavíkur til næstu ára. Kristófer er nokkuð reynslumikill í Lengjudeildinni en hann átti t.a.m. frábært tímabil með Leikni F. árið 2016 í deildinni þegar hann skoraði 10 mörk í 22 leikjum. Kristófer varð fyrir mjög alvarlegum meiðslum fyrir nokkrum árum og hefur verið að koma ferli sínum á réttan kjöl. Á síðasta tímabili skoraði Kristófer 8 mörk með Reyni S. í 22 leikjum.

„Ég er mjög ánægður með að fá Kristófer Pál til okkar. Ég þekki hann aðeins frá því ég þjálfaði hann á Selfossi. Þetta er hæfileikaríkur strákur sem við vonum að muni stimpla sig inn hjá okkur í Grindavík,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Grindavíkur.

Grindavík býður Kristófer Pál velkominn til félagsins.