KR 4 – Grindavík 1

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Grindavík sótti KR heim í 9.umferð Pepsi deildar karla í gær.

Ekki sóttu okkar menn sigur þangað því leikar enduðu 4-1 fyrir heimamenn sem má teljast vera sanngjörn úrslit.  Það vantaði nokkra lykilmenn í liðið hjá okkur því á sjúkralistanum voru m.a. Ameobi, Ondo, Paul McShane, Jósef og Alexander(sem var að vísu til staðar á bekknum), allt menn sem væru líklegir í byrjunarliðið.  Aðeins fimm leikmenn voru á bekknum þegar leyfilegt er að hafa sjö.

Fyrri hálfleikurinn einkenndist af hættulegum hornum hjá KR og áttu þeir fleiri færi.  Magnús Björgvinsson var hinsvegar nærri því búinn að koma okkar mönnum yfir stuttu fyrir leikhlé en skalli hans eftir horn fór í slánna.  Grétar Sigfinnur hjá KR tókst á hinn bóginn að skalla boltanum í netið í næstu sókn og voru KR 1-0 yfir í hálfleik.

Sama handrit var á seinni hálfleik, KR ingar betri og bættu við þremur mörkum áður en yfir lauk.  Sprækasti leikmaður Grindavíkur í gær, Pape Mamadou Faye, minnkaði muninn á 89. mínútu.

Rúnar Kristinsson sagði í KR-útvarpinu að hann hefði undirbúið lið sitt þannig að það mátti búast við Grindvíkingum baráttuglöðum með áherslu á varnarleikinn.  Hann impraði á því við sína menn að ef þeir hlypu jafn mikið og mundu berjast mikið um hvern bolta þá væri líklegt að þeir mundu vinna þar sem hann hefði yfir fleiri mönnum að spila sem gætu klárað leikinn.

Vissulega er það rétt hjá honum að hann er með fleiri leikmenn sem geta klárað leikinn en það verður að teljast sorglegt að lið sem er á botninum skuli einnig tapa í baráttunni og dugnaði þar sem t.d. KR sigraði langflest skallaeinvígi og þar fram eftir götunum.

Næsti leikur er gegn Val sem siglir um miðja deild. Leikurinn fer fram á Grindavíkurvelli klukkan 19:15 á fimmtudaginn.

Myndina hér að ofan tók Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir fyrir fótbolti.net