KR 3 – Grindavík 1

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Grindavík og KR mættust á KR vellinum í gær í 32 liða úrslitum Borgunarbikarsins.  Lokatölur voru 3-1 fyrir KR

Grindavík byrjaði leikinn mjög vel og voru mun betri fyrstu 20 mínúturnar.  Leyfðu heimamönnum að stýra leiknum en beittu hættulegum skyndisóknum með hinn öskufljóta Magnús Björgvinsson í fremstu víglínu.  Komst hann m.a. í gott færi en landsliðsmarkvörðurinn lokaði markinu vel.

Grindavík átti nokkur önnur færi en á 30. mínútu varð Daníel Leó fyrir því óhappi að missa boltann á hættulegum stað og Atli Sigurjónsson refsaði með hnitmiðuðu skoti.  Daníel Leó er framtíðarleikmaður okkar og spilaði annars mjög vel í gær.  Er bara óheppin að þessi fáu misstök sem hann gerir hafa reynst afdrifarík.  Það var hinsvegar ánægjulegt að sjá liðsfélaga rífa hann á fætur og hvetja hann áfram.

Annar ungur en jafn efnilegur leikmaður, Stefán Þór Pálsson, átti frábæra rispu í upphafi seinni hálfleiks þar sem hann labbaði í gegnum vörn KR og átti þrumuskot í slánna.  Kannski ágætt fyrir okkur að hann skoraði ekki því hann hefði eflaust ekki komist út úr KR heimilinu eftir leikinn án samningstilboðs.

Grindavík var, eins og í upphafi fyrri hálfleiks, mun betri í byrjun seinni hálfleiks.  Óli Baldur átti gott skot á markið sem Hannes þurfti að teygja sig langt til að verja en Jósef Kristinn Jósefsson var mættur á fjarstöngina og skoraði, 1-1.

Hættulegasti leikmaður Íslandsmótsins, Baldur Sigurðsson, kom KR yfir nokkrum mínútum síðar og virtust okkar menn brotna nokkuð við það.  Heimamenn gengu á lagið og bættu undir lokin þriðja markinu við.

Leikurinn í gær var gott viðmið hvernig liðinu miðar áfram, best að bera sig saman við þá bestu.  Ég verð segja fyrir mína parta að ég er bara bjartsýnn á gengi liðs Grindavíkur í sumar.  Liðið í ár er mun betra og ólíkt miklu skemmtilegri fótbolti spilaður heldur en í fyrra.  Undir lokinn voru flestir leikmanna Grindavíkur ungir og efnilegir  og meiri en helmingur uppaldnir Grindvíkingar.

Næsti leikur er gegn Tindastól á sunnudaginn en leikurinn hefur verið færður til Grindavíkur vegna vallaraðstæðna fyrir norðan.