Kominir í 16 liða úrslit

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Grindavík er komið áfram í Borgunarbikarnum eftir 1-0 sigur á Keflavík í kvöld og verður því í hattinum þegar dregið verður í 16 liða úrslit.

Byrjunarlið Grindavíkur var óbreytt frá leiknum gegn ÍA: Óskar, Ólafur, Loic, Mikael, Ray, Matthías, Markó, Alexander, Alex, Óli Baldur og Ameobi.

Á bekknum voru Binni, Björn Berg Bryde sem kom inn fyrir Alexander, Paul, Scotty, Páll, Pape sem kom inn fyrir Óla Baldur og Hafþór Ægir sem kom inn undir lokinn og ánægjulegt að sjá hann eftir langa fjarveru.

Sem sagt flott lið og fullur bekkur af leikmönnum sem geta komið inn og breytt gangi máli.

Fyrri hálfleikurinn var hin besta skemmtun, besti hálfleikurinn sem liðið hefur sýnt af sér í sumar.  Skot í stöng og slá var meðal atvika í leiknum og mörg færi á báða bóga.  Mark Grindavíkur í leiknum kom eftir langa sókn hjá okkar mönnum sem endaði með því að Matthías átti sendingu inn fyrir á Alex Frey Hilmarsson sem skoraði, virkilega skemmtilegur strákur sem Óli Stefán sendi okkur.

Seinni hálfleikurinn var ekki eins skemmtilegur en Grindavík stjórnaði honum algjörlega með vindinn í bakið og með smá heppni hefði Grindavík geta bætt við mörkum. Það var ekki fyrr en undir lokinn sem heimamenn sóttu meira en öflug vörn og Óskar í markinu hélt aftur af þeim og og héldu markinu hreinu í fyrsta skipti í sumar.

Mikil batamerki eru á liðinu sem hafa ekki tapað í síðustu þremur leikjum.  Næsti leikur er gegn Breiðablik 16. júní næstkomandi.