Knattspyrnudeildin framlengir samninga

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Á föstudaginn komu saman nokkrir af helstu stuðningsaðilum knattspyrnunnar í Grindavík og skrifuðu undir áframhaldandi styrktarsamninga.  Aðeins eitt lið í Evrópu hefur haft sama fyrirtæki framan á búningnum lengur en Lýsi hefur verið á Grindavíkurbúningum.

Skrifað var undir samning við IceWest, Lýsi, Haustak, Þorbjörn og Vísir og munu þessir samningar styrkja undirstöðuna fyrir rekstri deildarinnar.  Það kemur engum á óvart að öll þessi fyrirtæki vinna með sjávarafurðir og tengjast þau öll nokkuð, Lýsi og IceWest vinna mikið með afurðir frá Þorbirni, Vísi og sameiginlegu fyrirtæki þeirra síðastnefndu Haustaki.

Ingvar Vilhjálmsson eigandi IceWest er hér að skrifa undir ásamt Jónasi Þórhallssyni, formanni knattspyrnudeildar UMFG.

Jón Þorsteinsson hjá Lýsi framlengir samningnum við knattspyrnudeildina.  Samstarf Grindavíkur og Lýsi á 30 ára afmæli á næsta ári.  Aðeins eitt lið í Evrópu, PSV Eindhoven, hefur haft auglýsingu frá sama fyrirtæki lengur framan á búningum sínum þar sem þeir hafa verið með Philips síðan 1982 (Grindavík og Lýsi frá 1984).  En þar sem PSV stendur fyrir Philips Sport Vereniging og því nátengt fyrirtækinu þá hlýtur þetta samstarf Grindavíkur og Lýsi að vera algjört einsdæmi í fótboltaheiminum.

Eiríkur Tómasson frá Þorbirni og Pétur Pálsson frá Vísir hafa alla tíð verið helstu stuðningsaðilar Grindavíkur og engin breyting á því.

Þorbjörn og Vísir eru í ýmsu samstarfi og eiga m.a. saman í Haustak fiskþurrkun sem er styrktaraðili knattspyrnudeildarinnar.