Kairo Edwards-John til liðs við Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Grindavík hefur samið við Englendinginn Kairo Edwards-John og mun hann leika með Grindavík í Lengjudeildinni í sumar. Kairo er 22 ára gamall vængmaður sem getur einnig leikið sem framherji.

Kairo hefur leikið á Íslandi undanfarin tvö tímabil í Lengjudeildinni, fyrst með Magna og síðasta sumar með Þrótti Reykjavík. Kairo hefur leikið 46 leiki í deild og bikar hér á landi og skorað 15 mörk.

„Ég er mjög ánægður með að fá Kairo í til liðs við Grindavík. Hann er búinn að sanna sig í Lengjudeildinni, er kraftmikill og með eiginleika sem munu hjálpa okkur sóknarlega í sumar,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Grindavíkur.

Kairo kemur úr akademíunni hjá Leicester City og á meðal annars leik að baki með U16 ára landsliði Englands. Hann er væntanlegur til Íslands í næstu viku.

„Ég er í skýjunum með að ganga til liðs við Grindavík, klúbbur með ríka hefð og sögu sem lið í efstu deild á Íslandi,“ segir Kairo Edwards-John.

„Ég er búinn að heimsækja Grindavík tvisvar sem andstæðingur og verið mjög hrifinn af aðstöðu félagsins. Ég átti mjög gott samtal við Alfreð þjálfara og er hrifinn af þeirri hugmyndafræði sem hann hefur og þeirri áætlun sem hann er búinn að setja upp fyrir félagið til næstu ára. Ég er mjög þakklátur fyrir þá trú sem stjórn og þjálfari Grindavíkur hefur á mér sem leikmanni og get ekki beðið eftir því hefjast handa.“

Knattspyrnudeild Grindavíkur býður Kairo velkominn til félagsins og væntum við mikils af honum. Kairo er væntanlegur til Íslands í næstu viku.