Júlía Björk Jóhannesdóttir hefur skrifað undir sinn fyrsta samning við Grindavík og gildir sá samningur út tímabilið 2024. Júlía er aðeins 16 ára gömul en hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið 11 leiki í deild og bikarkeppni. Hún hefur skorað eitt mark fyrir félagið.
Júlía er mjög efnilegur varnar- og miðjumaður sem hefur verið í úrtakshópum fyrir yngri landslið Íslands. Hún á mjög bjarta framtíð fyrir höndum og hefur alla burði til að verða að lykilleikmanni hjá félaginu á næstu árum.
„Ég er ánægður með að Júlía ætli að taka slaginn með okkur á komandi tímabilum. Júlía er metnaðarfullur og efnilegur leikmaður sem við Grindvíkingar bindum miklar vonir við,“ segir Anton Ingi Rúnarsson, þjálfari kvennaliðs Grindavíkur.
Knattspyrnudeild Grindavíkur lýsir mikilli ánægju með að ein af uppöldu leikmönnum félagsins hafi samið við félagið til næstu ára. Frekari frétta af leikmannamálum meistaraflokks kvenna er að vænta á næstu dögum.
Áfram Grindavík!