Juanra Martinez gengur til liðs við Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Grindavík hefur samið við spænska miðjumanninn Juanra Martinez og mun hann leika með félaginu í Lengjudeild karla út leiktíðina. Juanra er 28 ára gamall varnarsinnaður miðjumaður sem hefur leikið á Spáni allan sinn feril.

Juanra hefur leikið síðustu ár með Atlético Pulpileño í fjórðu deildinni á Spáni. Hann á einnig að baki nokkur tímabil í Segunda B deildinni á Spáni með Real Murcia, Guijuelo og Lorca FC.

„Ég er mjög ánægður með að fá Juanra til liðs við okkur. Ég tel að hann sé með eiginleika sem okkur vantar í liðið hjá okkur. Hann kemur einnig með reynslu sem atvinnumaður inn í liðið sem mun hjálpa okkur í þeim leikjum sem eru framundan út tímabilið,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Grindavíkur.

Juanra er mættur til landsins og er kominn með leikheimild fyrir næsta leik Grindavíkur gegn Aftureldingu á fimmtudag á Grindavíkurvelli.

Velkominn til Grindavíkur, Juanra Martinez!