Jósef genginn til liðs við PSFC Chernomorets Burgas

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Jósef Kristinn Jósefsson skrifaði í dag undir þriggja ára samning við búlgarska liðið PSFC Chernomorets Burgas en hann var á reynslu hjá liðinu í síðasta mánuði.

Chernomorets Burga kaupir Jósef af Grindavík en kaupverðið er trúnaðarmál. Keppni í búlgörsku deildinni hefst aftur á morgun eftir vetrarfrí en félagaskiptaglugginn þar í landi lokar á sunnudaginn.

Jósef vildi koma á framfæri þakklæti til allra stuðningsmanna, leikmanna og stjórn Grindavíkur fyrir frábær ár með félaginu með von um að því farnist vel.  Hann segir að samningaviðræðurnar við búlgarska liðið hafi gengið vel fyrir sig og hann sé jafnframt mjög spenntur að takast á við atvinnumennskuna sem hafi alltaf verið markmið hans.

„Við fögnum því að Grindvíkingur í húð og hár sem alinn er upp hér í félaginu fái þetta tækifæri. Jósef er vel að því kominn, hann hefur lagt mikið á sig við æfingar og í leikjum og hefur alla burði til þess að ná langt í boltanum,“ sagði Þorsteinn Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar við heimasíðuna.

Jósef sem er 21 árs hefur leikið allan sinn feril með Grindavík. Hann hefur leikið 90  með Grindavík í Pepsideild, 1. deild og Vísabikar og skorað 6 mörk. Þá hefur hann leikið 5 leiki með U21 árs liði Íslands og skoraði 1 mark, 10 með U19 og 7 með U17