Jói Helga farinn norður

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Jóhann Helgason hefur ákveðið að ganga til liðs við uppeldisfélag sitt, KA, á lánssamningi.

Með Grindavík hefur Jóhann spilað 134 leiki í bikar og deild frá því hann kom frá KA 2005.  Báðir þeir sem hafa spilað flesta leikina saman á miðjunni síðustu ár eru því farnir til Akureyrar til síns uppeldisfélag því Orri Freyr Hjaltalín gekk í raðir Þórs á dögunum.

Í umfjöllun um félagsskiptin á vef KA(þar sem myndin hér að ofan er fengin frá) er þetta að finna:
“Miðjumaðurinn Jóhann Helgason gekk í dag í raðir KA – síns uppeldisfélags – á lánssamningi frá Grindavík og mun spila með liðinu í 1. deildinni í sumar. Samningur við Jóhann var undirritaður í KA-heimilinu í dag.

Jóhann Helgason er gulur og blár í gegn. Hann er fæddur árið 1984 og æfði og spilaði með KA upp allra yngri flokka og á að baki 51 meistaraflokksleik í efstu deild, 1. deild og bikar með KA á árunum 2002-2006. Þá gekk hann til liðs við Grindavík og hefur síðan spilað þar samtals 126 leiki – þar af spilaði hann 24 leiki á liðnu keppnistímabili með Grindvíkingum í Valitor-bikarnum og Pepsídeildinni. Í þessum 177 meistaraflokksleikjum hefur Jóhann skorað 21 mark. Þá á hann að baki fimm landsleiki á árunum 2001-2003 með U-18, U-19 og U-21 ára landsliðum Íslands.

„Mér fannst vera kominn tími á að spila aftur með mínu uppeldisfélagi og það er minn vilji að taka þátt í því af krafti að rífa klúbbinn upp á þann stall sem ég tel að hann eigi að vera. Vissulega er ég af mikilli KA-fjölskyldu og ég neita því ekki að hafa orðið fyrir töluverðum þrýstingi úr ýmsum áttum að koma aftur og spila með KA! Mér finnst ég núna merkja mikinn metnað hjá félaginu að gera góða hluti í fótboltanum og ég hef fulla trú á því sem er verið að gera. Ég er ekki að koma í KA til þess að slappa af, ég vil og ætla mér af krafti að leggja mitt af mörkum til þess að koma félaginu á réttan stað. Ég tel enga ástæðu til annars en að stefna að því næsta sumar að koma KA upp í efstu deild. Þar á klúbburinn heima. Til þess að það geti gerst þurfa allir að leggjast á eitt – þjálfarar, leikmenn, stjórn, bakhjarlar og síðast en ekki síst stuðningsmenn. Nú verða allir að taka þátt af krafti í þessu átaki!

Auðvitað er 1. deildin mjög sterk. Gamlir refir eru þar komnir inn í þjálfun og því má búast við mjög skemmtilegu tímabili næsta sumar. En þetta er mikil og skemmtileg áskorun sem ég hlakka mikið til að taka þátt í. Það verða nokkur lið sem berjast um að fara upp og í mínum huga er alveg klárt að KA verður eitt þeirra liða.
Það hefur auðvitað haft sitt að segja í þeirri ákvörðun minni að koma aftur norður að gamlir refir af þessari kynslóð eru nú farnir að spila með KA-liðinu á nýjan leik – t.d. Gunnar Valur Gunnarsson og Elmar Dan Sigþórsson og vonandi nær Andrés Vilhjálmsson sér af sínum meiðslum þannig að hann geti hjálpað okkur í baráttunni næsta sumar. Í mínum huga er afar mikilvægt að fá þessa kynslóð aftur inn í KA-liðið. Við eigum að geta miðlað af okkar reynslu til ungu strákanna, sem skiptir miklu máli og það hefur líka sitt að segja að þetta eru allt uppaldir KA-menn sem eru með hjartað á réttum stað og tilbúnir í ýmislegt fyrir klúbbinn.
Sjálfur tel ég mig vera í toppstandi. Ég er á besta aldri sem fótboltamaður – 28 ára á þessu ári. Það er frábær tilfinning að ganga frá þessum samningi við KA í dag og eftirvæntingin er gríðarleg að spila fyrir félagið á nýjan leik. Ég skora bara á alla sanna stuðningsmenn KA að taka þátt í þessu með okkur leikmönnunum, mæta vel á alla leiki og búa til alvöru stemningu í kringum liðið. Ef allir leggjast á eitt er ýmislegt hægt,” segir Jóhann Helgason, sem mun flytja norður í maí, en fram að þeim tíma mun hann æfa í heimahögunum og taka þátt í æfingum með KA-strákunum sem eru á höfuðborgarsvæðinu, auk þess að spila með KA-liðinu á undirbúningstímabilinu.

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari KA, leynir ekki ánægju sinni með að fá Jóhann Helgason í KA-liðið fyrir næsta keppnistímabil. „Við erum gríðarlega ánægðir með að endurheimta Jóa Helga í KA. Hann er ekki bara á frábærum fótboltaaldri heldur með mikla leikreynslu úr úrvalsdeild sem mun nýtast liðinu mjög vel. Með komu hans eykst breiddin á miðjunni til muna sem gefur okkur ýmsa möguleika. Hann er þriðji heimamaðurinn sem snýr til baka síðan í sumar og það er einmitt það sem lið KA hefur vantað, reynslumikla KA-menn sem eru fyrirmyndir fyrir okkar ungu leikmenn og koma með mikla reynslu í klefann og inn á völlinn,” segir Gunnlaugur Jónsson.”

Við óskum Jóhanni velfarnaðar, þökkum fyrir árin með Grindavík og vonumst til að sjá hann aftur í réttu gulu og bláu treyjunni.