Knattspyrnudeild Grindavíkur hefur samið við hinn þrautreynda þjálfara Milan Stefán Jankovic og verður hann aðstoðarþjálfari hjá karlaliði Grindavíkur. Verður hann aðstoðarmaður Alfreðs Elíasar Jóhannssonar sem var kynntur sem þjálfari Grindavíkur fyrir skömmu.
Það þarf vart að kynna Janko fyrir Grindavíkingum en hann hefur búið hér í þrjá áratugi og er samofinn sögu knattspyrnudeildar Grindavíkur. Hann kemur nú inn í nýtt hlutverk hjá Knattspyrnudeild Grindavíkur og verður aðstoðarþjálfari hjá meistaraflokki karla ásamt því að sinna afreksþjálfun hjá félaginu. Janko var síðast aðstoðarþjálfari hjá Grindavík þegar Óli Stefán Flóventsson stýrði liðinu á árunum 2016-2018.
Knattspyrnudeild Grindavíkur bindur miklar vonir við störf Janko með meistaraflokki félagsins. Hann býr yfir mikilli reynslu og hefur náð mögnuðum árangri í starfi sínu sem þjálfari hjá Grindavík. Alfreð Elías gæti ekki fengið betri aðstoðarmann með sér í það verkefni sem er fyrir höndum.
Áfram Grindavík!