Jafntefli gegn KR

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Grindavík og KR skildu jöfn í leik kvöldsins. Lokatölur voru 2-2 þar sem liðin sigruðu hvorn sinn hálfleikinn.

KR átti mörg góð færi í byrjun leiks en ágæt vörn og markvarsla hélt markinu hreinu.  Alex Freyr spilaði á miðjunni gegn mörgum þekktari nöfnum en þrjár sendingar hans inn fyrir vörn KR vinstra meginn enduðu með tveimur mörkum frá Magnús Björgvinssyni.  Mörkin sem voru keimlík komu á 24. og 33. mínútu.

Það var Emil Atlason sem skoraði mörk KR sem komu bæði í seinni hálfleik. Mörkin voru að vísu klaufaleg frá okkar bæjardyrum séð en ég verð að segja fyrir mína parta að þau komu ekki að sök.  Það var orðið allt of langt að maður gekk nokkuð ánægður frá Grindavíkurvelli eins og raunin var í kvöld.  Grindavíkurliðið spilaði nefnilega alveg þrælvel í dag og synd að ekki fleiri áhorfendur sáu leikinn.

Í liðið vantaði marga vegna meiðasla og hefur það verið notað sem afsökun allt of lengi.  Þeir þréttan leikmenn sem tóku þátt í leiknum eiga fullt erindi í liðið og eina spurningin sem maður spurði sig í lok leiks var: Hvar var þessi leikur í allt sumar?  Engin pressa er lengur á okkar menn þar sem ljóst er hvar liðið spilar næsta sumar og hefur það sennilega eitthvað haft að segja.  Ef við náum að halda flestum af þeim leikmönnum sem eru hjá okkur í dag plús efnilega stráka í 2. flokki þá ætti ferðasumarið mikla næsta timabil að vera skemmtilegt.

Næsti leikur er gegn Val á útivelli og lokaleikurinn er heima gegn Fylki laugardaginn 29.september, nokkrum tímum fyrir glæsilegt lokahóf.