Hólmfríður Samúelsdóttir hefur ákveðið að taka fram skónna og spila með Grindavík í sumar ef hún verður orðin góð af meiðslum.
Kvennalið Grindavíkur undirbýr sig fyrir slaginn í sumar. Á dögunum skrifuðu átta leikmenn liðsins undir nýja samninga.
Þeirra á meðal var Hólmfríður Samúelsdóttir sem verður liðinu án efa mikill liðsstyrkur. Hólmfríður ætlar reyndar að æfa til vors og sjá hvernig formið á sér verður en hún hefur glímt við meiðsli í baki. Ef hún kemur vel undan vetri er hugsanlegt að hún verði með í slagnum í sumar.
Kvennaliðið var dregið út úr Faxaflóamótinu fyrir skömmu þar sem liðið var einfaldlega ekki fullmannað en að sögn kvennaráðs verður nú allt sett á fullt til þess að tefla fram öflugu liði næsta sumar.