Helga Rut gerir sinn fyrsta samning

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Helga Rut Einarsdóttir hefur skrifað undir sinn fyrsta samning við Grindavík út tímabili 2024. Helga Rut er aðeins 15 ára gömul en hefur þrátt fyrir það leikið 15 leiki með Grindavík í deild- og bikarkeppni.

Helga Rut er gríðarlega efnilegur varnarmaður sem var valin í U15 ára landslið Íslands í ár. Hún lék sinn fyrsta landsleik í ágúst síðastliðnum og stóð sig vel. Helga getur leikið stöðu miðvarðar og vinstri bakvarðar. Helga stóð sig afar vel með Grindavík á síðustu leiktíð og var komin með fast sæti í byrjunarliðinu þrátt fyrir ungan aldur.

„Helga Rut er virkilega öflugur leikmaður sem hefur eignað sér sæti í liðinu þrátt fyrir ungan aldur með frábærri spilamennsku. Hún er stöðugt að bæta sig sem leikmaður og er klárlega með efnilegri stelpum sem upp hafa komið hjá okkar félagi. Við bindum miklar vonir við Helgu á komandi tímabili,“ segir Anton Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindavíkur.

Helga Rut á ekki langt að sækja hæfileika sína í íþróttum. Hún er dóttir Fjólu Benónýsdóttur og Einars Þórs Daníelssonar sem á að baki frábæran feril með KR.

Knattspyrnudeild Grindavíkur lýsir mikilli ánægju með að ein af uppöldu leikmönnum félagsins hafi samið við félagið til næstu ára. Frekari frétta af leikmannamálum meistaraflokks kvenna er að vænta á næstu dögum.