Guðný Eva semur til tveggja ára

KnattspyrnaKnattspyrna

Guðný Eva Birgisdóttir, fyrirliði Grindavíkur, hefur gert nýjan samning við Knattspyrnudeild Grindavíkur til ársins 2022. Guðný hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin sumur en Grindavík fagnaði sigri í 2. deild kvenna í sumar.

Guðný Eva er 23 ára gömul og hefur alla tíð leikið með Grindavík. Alls á hún að baki 117 leiki með Grindavík í deild og bikar. Guðný lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki árið 2012 þegaar hún var 15 ára gömul.

„Guðný Eva er mikilvægur hlekkur í liði Grindavíkur og það er frábært að hún ætli að leika með liðinu áfram næstu tvö keppnistímabil,“ segir Petra Rós Ólafsdóttir, formaður kvennaráðs Grindavíkur. „Við erum í óða önn að undirbúa næsta keppnistímabil í Lengjudeildinni og skiptir okkur miklu máli að fyrirliðinn verði áfram hjá félaginu. Guðný er mikilvæg bæði innan sem utan vallar – fyrirmynd og góður leiðtogi í þessu unga liði.“

Frekari frétta er að vænta af leikmannamálum félagsins á næstu dögum.