Þá er N1 mótinu lokið þetta árið með stór glæsilegum árangri okkar pilta í 5. flokki. Við fórum norður með 4 lið á mótið sem er ótrúlega gott miðað við höfðatölu.
Við spiluðum í fyrsta sinn í sögunni úrslitaleikinn á N1 mótinu í Argentísku deildinni en þar er keppt um sjálfan N1 móts bikarinn. Einnig spiluðum við til úrslita um bikarinn í Grísku deildinni.
Niðurstaða mótsins:
Grindavík 1 tapaði fyrir Breiðablik 1 í Argentísku deildinni 0-3 í opnum og spennandi leik. Við vorum óheppin að skora ekki á fyrstu mínútunni, auk sláar- og stangarskots í leiknum, en inn vildi boltinn ekki. Maður leiksins í okkar liði var valinn Eysteinn Rúnarsson.
Grindavík 2 spilaði við Fram 4 í Dönsku deildinni um 21. sætið og unnu þann leik 1-0 með marki frá Ívari Atla.
Grindavík 3 vann lið FH 8, 7-2 í leik um 9. sætið í Frönsku deildinni. Markaskorarar: Hinrik 2, Ragnar, Orri Sveinn, Jóhann Andri og Sævar.
Grindavík 4 spilaði við lið KA úrslitaleik í Grísku deildinni. Sa leikur endaði með sigri KA 2-5. Guðmundur Hreiðar skoraði bæði mörk okkar manna og var svo valinn maður leiksins.
Til hamingju með flottan árangur strákar. Framtíðin okkar er svo sannarlega björt.
Drengirnir stóðu sig allir með stakri prýði og voru félaginu svo sannarlega til sóma.
Það eru margir sigrar unnir á svona mótum innan og utan vallar og miklu fleiri en bikarar og medalíur segja til um.
Einhverjir bættu sig í að hlaupa meira, komu í veg fyrir mörk, vörðu fleiri skot í dag en í gær, sendu betri sendingar en áður, voru betri liðsfélagar, hrósuðu meira og svo mætti lengi telja. Svona mót fara í reynslu- og minningabankann um ókomna tíð hjá þessum drengjum. Þroska krakkana og kenna þeim ýmislegt sem oft er erfitt að læra af bókum.
Langar mig í framhaldi af þessu til að minnast sérstaklega á einn leikmann hópsins, Helga Hróar, sem hefur unnið marga sigrana innan vallar jafnt sem utan í gegnum árin svo tekið hefur verið eftir, en hann er að “leggja skóna á hilluna” eftir þetta mót. Helgi Hróar fæddist með helftarlömun sem veldur hreyfihömlun á allri vinstri hlið likamans.
Og hér kemur færslan sem mamma hans Gulla setti inn eftir mótið:
(Sett inn með hennar leyfi)
Fótboltaskórnir lagðir á hilluna eftir frábært N1 mót á Akureyri ❤⚽️
Súr ákvörðun sem var svo sannarlega ekki tekin í skyndi.
Helgi Hróar hefur einstakan leikskilning og lifir fyrir fótbolta en því miður er það ekki nóg.
Líkami hans fylgir ekki jafn hratt huganum og hjarta og hefur hann fundið það hversu erfitt það er að halda í við liðsfélaga og mótherja.
En hann gaf aldrei eftir og setti alltaf alla orkuna sína á leikvöllinn.
En þrátt fyrir að um ákveðin vanmátt og hraðahindranir séu að ræða getur hann alltaf, og af öllu hjarta, samglaðst liðsfélögum þegar þeim gengur vel en honum ekki eins vel.
Hann stendur því alltaf uppi sem sigurvegari ❤⚽️🏆
Í lokin viljum við þakka þjálfurum, foreldrum og öðrum stuðningsmönnum fyrir vel heppnað mót og skipulag. Stemning á hliðarlínunni og þjálfarar fara raddlausir heim með gleði í hjarta.