Grindavík er einstök

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Góður forsvarsmaður fyrirtækis í Grindavík sagði á sínum tíma: “Grindavík er einstök! Hér er öflugt íþrótta- og atvinnulíf, hvorugt má af hinu sjá. Það skilja menn hér bæ.”

Viðburðarríku knattspyrnurári er að ljúka. Grindavík verður áfram á meðal þeirra bestu í Pepsideildum karla og kvenna og yngri flokkarnir stóðu sig með sóma.

Starfið var með nokkuð hefðbundnu sniði en engu að síður er stjórn knattspyrnudeildarinnar að horfa til framtíðar þótt aðstæður í samfélaginu séu víða erfiðar.

Okkar skylda er að sníða stakk eftir vexti í rekstrinum og slíkt mun stjórn knattspyrnudeildar hafa að leiðarljósi. Gripið hefur verið til hagræðingar í rekstrinum með ýmsum hætti en betur má ef duga skal. Líkt og hjá öðrum knattspyrnuliðum í efstu deild er reksturinn enginn dans á rósum en með samtakamætti Grindvíkinga hefur okkur tekist að reka deildina réttu megin við núllið undanfarin ár. Þá er deildin nánast skuldlaus. Fáir átta sig á þeirri staðreynd að knattspyrnudeildin spýtir helling til baka inn í samfélagið, ekki bara í formi forvarna barna og unglinga, heldur einnig í tekjum launþega. Velta fótboltans í Grindavík á þessu ári er hátt í 100 milljónir króna og er þá allur rekstur innifalinn, einnig hjá yngri flokkunum. Starfsfólk, þjálfarar og leikmenn þiggja laun.

Líkt og önnur félög í efstu deild karla, Pepsideild, þarf knattspyrnudeildin að undirgangast afar strangt Leyfiskerfi KSÍ til þess að fá keppnisleyfi og hluti af því er að löggilt endurskoðun reikninga. Þetta er gæðastimpill á starfið og staðreyndin er sú að knattspyrnudeild Grindavíkur greiðir 6 til 7 milljónir til baka inn í samfélagið í formi útsvars, auk annarra gjalda. Það er ekki svo lítið. Rétt er að taka fram að rekstur margra annarra knattspyrnudeilda í Pepsideild er allt að því helmingi hærri en hjá okkur Grindvíkingum. Þar vegur þungt lítil starfsmannavelta, einstakt afreksfólk og stöðugleiki í stjórn undanfarna áratugi og skynsamlegur rekstur. Engu að síður þurfum við að halda vel á spöðunum til þess að vera samkeppnisfærir. Samningar við marga af okkar helstu bakhjörlum eru lausir nú um áramót og vorum við í stjórninni nokkuð uggandi um framhaldið. En það er okkur mikið gleðiefni að tilkynna að á morgun munum við skrifa undir nýja samstarfssamninga við flesta af okkar stærstu bakhjörlum en öll þessi fyrirtæki styðja við bakið á fótboltanum í Grindavík með glæsibrag. Við lítum því fullir bjartsýni til knattspyrnusumarsins 2011. Grindavík er lítill klúbbur en með stórt hjarta og hér ríkir metnaður á öllum vígstöðvum. Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópi meistaraflokks karla sem miða að því að styrkja liðið enn frekar. Hjá meistaraflokki kvenna ríkir enn nokkur óvissa í kringum leikmannamál en þar er afar öflugt kvennaráð. Í yngri flokkunum eru afar hæfir þjálfarar og þar blómstrar starfið undir öruggri stjórn unglingaráðs. Hins vegar eru blikur á lofti í rekstri yngri flokkanna því Grindavíkurbær þarf að hagræða í rekstri líkt og annars staðar. Íþróttahreyfingin á í viðræðum við bæjaryfirvöld um framlög til æsulýðs- og íþróttastarfs á næstu árum en nú liggur fyrir að tekin verða upp æfingagjöld að nýju á næsta ári, líklega frá 1. ágúst nk.

Fyrir hönd stjórnar knattspyrnudeildar sendi ég starfsfólki okkar, öllum þjálfurum, leikmönnum meistaraflokkanna, iðkendum yngri flokkanna, kvennaráði, unglingaráði, öllum okkar frábæru sjálfboðaliðum, stuðningsmönnum og ekki síst velunnurum okkar og bakhjörlum bestu kveðjur um gleðilegt nýtt knattspyrnuár, með kærri þökk fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Já. Grindavík er einstök! Hér er öflugt íþrótta- og atvinnulíf, hvorugt má af hinu sjá. Það skilja menn hér bæ.

Þorsteinn Gunnarsson formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur