Grindavík 2 – Stjarnan 2

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Grindavík og Stjarnan skildu jöfn í skemmtilegum leik sem fór fram í dag.

Grindavík stillti upp “íslensku” liði í dag með Óskar í markinu. Ólafur þjálfari og Orri sem hafsentar og Jobbi og Alexander bakverðir.  Fyrir framan vörnina voru Matthías og Bogi Rafn.  Magnús fremstur með Jóhann, Óla Baldur og Scotty fyrir aftan hann.  Þrælflott lið og voru mun betri aðilinn á upphafsmínútunum þar sem þeir fengu nokkur ágætis færi og 6 hornspyrnur á fyrstu 10 mínútunum.  Óli Baldur og Jobbi voru flottir á vinstri kantinu og sköpuðu oft hættur framarlega á vellinum.   Orri var einnig mjög góður í öftustu línu og í heildina var þetta einn besti leikur Grindavíkur í sumar.

En að atvikum leiksins var þetta að frétta.  Ungir leikmenn leiða oft leikmenn á vellin og í þetta skipti var það gutti frá Hornafirði sem spilar í engu nema treyju númer 7, Óli Stefán Flóventsson, sem var verið að steggja.

Fyrsta mark leiksins kom gegn gangi leiksins þegar Jóhann Laxdal fékk boltann inn fyrir vörn Grindavíkur og skoraði fram hjá Óskari í markin.  Á 14. mínútu fékk Óli Baldur boltann rétt innan við teig og hélt boltanum í 10 sekúndur á meðan flestir varnarmenn gestanna reyndu að ná boltanum af honum. Scotty kom þá inn í teiginn og Óli renndi boltann á hann sem skoraði markið og jafnaði þar með leikinn.

Um þetta leyti lenti Bogi Rafn í því að fara úr axlarlið. Þar sem hann hefur lent í þessu nokkrum sinnum áður var ráðlagt að fara til læknis sem hefur sennilega kippt þessu í liðinn.

Rétt fyrir leikhlé fengu Stjörnumenn víti.  Byrjaði ferlið þannig að gestirnir fengu hornspyrnu með Scotty og Óla Baldur í varnarvegg. Boltinn fór í hönd og var hornspyrnan færð framar.  Aftur var talið að boltinn hafi farið í hönd og þar sem varnarveggurinn var nú innan teigs var dæmt víti.  Halldór skoraði úr því.  Ray Anthony Jónsson jafnaði leikinn mínútu seinna þegar Jósef gaf fyrir en línuvörðurinn vildi meina að Ray hafi verið rangstæður. 2-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var álíkur þeim fyrri að Grindavík var betri aðilinn en jöfnunarmarkið kom ekki fyrr en á 88 mínútu þegar Magnús Björgvinsson skoraði fram hjá Ingvari í markinu eftir sendingu sem skoppaði nokkrum sinnum áður en Magnús tók hann.

2-2 var því niðurstaðan og þó við tökum gjarnan við stiginu þá átti Grindavík alveg möguleika á að taka þau öll.

Sjötti leikur án taps er því staðreynd og Grindavík heldur áfram að hala inn stig.  Næsti leikur er gegn KR á KR vellinum og má búast við hörkuleik þar.