Eitthvað lengist biðin eftir fyrsta sigrinum í Pepsi deildinni, hann kom allavega ekki í kvöld.
Allt annað var að sjá liðið koma til leiks í kvöld miðað við hörmungina á Kópavogsvelli um helgina. Menn komu inn virkilega tilbúnir í slaginn í stað þess að hengja haus. ÍBV átti kannski hættulegri í fyrri hálfleik en Grindavík ekkert síðri aðilinn. Það munar miklu að boltinn haldist innan liðsins í smá tíma í stað þess að fá bylgju eftir bylgju af hröðum sóknum á vörnina. Gekk þetta ágætlega fyrstu 20 mínúturnur en gestirnir komu meira inn í leikinn eftir það.
Þrjár breytingar voru gerðar á liðinu frá síðasta leik. Loic Ondo tók út leikbann en er einnig meiddur og kom Björn Bryde inn fyrir hann. Skotarnir knáu Paul McShane og Scott McKenna Ramsay komu einnig inn í liðið fyrir Óla Baldur og Alex Frey.
Tvö frekar ódýr gul spjöld á Marko var þess valdandi að Grindavík spilaði einum færri allan seinni hálfleik og munar það um minna gegn einu besta liði landsins. Grindavík átti hinsvegar ágætan möguleika á að vera einu marki yfir í hálfleik en af einhverjum óskiljanlegum hátt tókst okkar mönnum ekki að koma boltanum inn fyrir línuna á síðustu mínútum fyrri hálfleiksins.
Í seinni hálfleik voru gestirnir mun betri og áttu sigurinn skilið. Ameobi var einn frammi mest allan leikinn og fékk litla hjálp, hvorki frá dómara sem tók ekki á brotum á honum né samherjum þar sem allt of lengi tók að færa liðið fram og voru eyjamenn orðnir fjölmennir í vörninni þegar sækja átti á markið. Magnús Björgvinsson kom inn á fyrsta skipti í sumar og nýtti sínar 10 mínútur vel þar sem hann skoraði mark Grindavíkur undir lokinn. Magnús var einmitt okkar markahæsti leikmaður í fyrra með 7 mörk í deildinni og verður gaman að fylgjast með samstarfi hans og Ameobi í næstu leikjum þ.e. ef Guðjón ákveður að spila þeim saman.
Næsti leikur í deildinni er 1.júlí gegn KR á KR velli en fyrst er það bikarleikur við KA mánudaginn 25.júlí
Myndir hér að ofan tók Eyþór Sæm fyrir Víkurfréttir.