Grindavík 0 – Keflavík 2

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Rétt í þessu lauk leik Grindvíkur og Keflavíkur í fjórðu umferð Pepsi deild karla.  Leiknum lauk með sigri Keflavíkur 2-0

Jóhann Helgason með aukaspyrnu rétt fyrir utan teiginn. Upp úr henni fær Grindavík hornspyrnu og Kristinn Jakobsson flautar leikinn af fljótlega eftir það.

Pospisil kemur inn fyrir Scotty en áður var Óli Baldur búinn að koma inn í leikinn og Alexander Magnússon hvíldi.  Leikurinn sem var hin fínasta skemmtun fram að 70. mínútu hefur fjarast út og lítið markvert gerst á síðustu mínútum.

Magnús kemur inn á 71. mínútu í staðinn fyrir Yacine Si Salem. Yacine er búinn að vera þrælgóður í leiknum og sérstklega í seinni hálfleik.

Þrátt fyrir að vera tveimur mörkum undir þá endurspeglar það ekki spilamennskuna í seinni hálfleik. Grindavík er búið að vera mun betri, Yacine, Scotty, Paul Winters og allir hinir eru alveg þrælhættulegir og eiga eftir að skora í kvöld, vonandi tvisvar að minnsta kosti.

Óskar nær ekki að hreinsa boltann frá marki og Guðmundur Steinarsson nýtir sér tækifærið og vippar yfir Óskar, 0-2

Orri var hársbreidd frá því að jafna leikinn.  Góð sókn endaði með því að Orri að átti skot sem Ómar varði.  Stuttu seinna átti Yacine þrumuskot sem Ómar varði aftur.

Seinni hálfleikurinn hafinn og Grindavík fær núna vindinn í bakið.  Engin breyting á liðinu í hálfleik en gestirnir skipta Jóhanni Birni út fyrir Magnús Þórir

-42 mín Guðmundur Steinarsson fær að leika sér með boltann fyrir framan teig, Ólafur eltir hann út og opnast þá svæði sem Andri Steinn Birgisson nýtir sér og skorar framhjá Óskari, 0-1  Paul var nálægt því að jafna í næstu sókn en Ómar varði vel.

16 mín Keflavík með aukaspyrnu sem endar með því að einn þeirra er dauðafrír en Óskar kemst á undan í boltann.  Hröð sókn í staðinn hjá okkur mönnum þar sem Yacine og Robert eru komnir tveir á móti einum varnarmanni en skot Roberts fer rétt framhjá.

Ölgerðin er með sitt lið á vellinum og Peppi pepsidós meira segja búinn að láta sjá sig.  Í hálfleik fá ungir iðkenndur tækifæri að bleyta Bjarna Andrésson með einhverju tæki sem kallað er heita sætið. 

Leikurinn fer rólega af stað.  Grindavík spilar á móti vindi og Þorbirni og hafa átt nokkrar rispur sem hafa verið mishættulegar.  Hættulegustu færi gestana hafa komið upp úr hornum þar sem þeir reyna að nýta sér vindinn.

-9 mín Grindavík komið í ágæta sókn þar sem Robert, Yacine og Scotty er komnir 3 á 3.  Togað er í Yacine og missir hann því af boltanum og upplögðu færi en Keflavík slapp þarna við brot og þá væntanlega spjald ef Kristinn hefði dæmt.

 

Fyrir leikinn var tilkynnt um samstarf Landsbankans, knattspyrnudeildarinnar og Björgunarsveitarinnar Þorbjörns.  Er þetta liður í “samfélag í nýjan búning” átaki Landsbankans.  Landsbankinn afsalar sér auglýsingum á búningnum og mega meistaraflokkar karla og kvenna velja sér gott málefni sem fer á búningana í staðinn.  Að þessu tilefni veitti Valdimar Einarsson, útibústjóri Landsbankans í Grindavík, og fyrirliðar meistarflokks karla og kvenna þau Orri Freyr Hjaltalín og Anna Þórunn Guðmundsdóttir fulltrúa Björgunarsveitarinna Þorbjarnar, Bogi Adolfsson, ávísun upp á 500.000 kr.

Leikir þessara grannaliða hafa verið fínasta skemmtun í gegnum tíðina og alltaf vel mætt í stúkuna.  Vonandi verður sama upp á teningnum í kvöld en nokkuð kalt er í veðri, lúmst gluggaveður.

Byrjunarlið Grindavíkur er skipað eftirfarandi leikmönnum.

Óskar er mættur aftur milli stanganna eftir nokkra vikna fjarveru.  Ólafur, Jamie, Ray og Alexander skipa varnarlínuna.

Á miðjunni eru Jóhann, Orri, Yacine og Paul.  Frammi verður Robert og Scotty einhversstaðar þarna á milli.

Á bekknum eru Jack Giddens, Pospisil, Matthías, Magnús, Óli Baldur, Guðmundur Egill og Vilmundur.

Dómari leiksins er Kristinn Jakobsson og honum til aðstoðar Frosti Viðar Gunnarsson og Viðar Helgason. 

Hægt verður að fylgjast með öðrum textalýsingum á eftirfarandi miðlum

fotbolti.net

visir.is

mbl.is

Leikskýrsla ksi.is