Óli Baldur Bjarnason tryggði Grindavik mikilvægt stig með frábæru marki á 78. mínútu í kvöld
Byrjunarlið Grindavíkur var nær óbreytt frá leiknum gegn Stjörnunni. Bogi Rafn meiddist í þeim leik og var því ekki með í dag og ekki miklar líkur að hann spili meira í haust. Jamie McCunnie kom aftur í liðið fyrir hans stað.
Óskar var sem fyrr í markinu enda voru tveir af bestu markmönnum landsins að mætast í kvöld. Ólafur og Jamie voru hafsentar og Jobbi og Alexander bakverðir.
Á miðjunni voru Akureyringarnar þrír Jóhann, Orri og Matthías. Óli Baldur og Scotty á köntunum með Magnús fremstan.
Á bekknum eru voru Ray, Pospisil, Elías, Guðmundur Egill, Haukur Ingi og tveir strákar fæddir 1995 þeir Hákon Ívar Ólafsson og Daníel Leó Grétarsson. Ray kom inn fyrir Orra á 64. mínútu, Guðmundur Egill inn fyrir Jamie á 90 mínútu og svo kom Hákon Ívar inn fyrir Scotty undir lok leiks. Hákon hefur spilað með 3.flokki enda aðeins fæddur 1995 og því ekki amalegt að byrja ferilinn á KR velli.
Grindavík var fyrir leikinn í 9. sæti með 19 stig en KR öðru sæti með 38 stig og því barátta hjá báðum liðum en á sitthvorum enda töflunnar.
KR byrjaði leikinn betur og stjórnuðu leiknum í fyrri hálfleik. Óskar var hinsvegar frábær í markinu og þurfti nokkrum sinnum að taka á stóra sínum. Grindavík átti hinsvegar sín færi og var t.d. Orri(sem var eitilharður í stutterma bol en með hanska sem er ekki alveg eins hart) nálægt því að skora en Hannes varði vel.
Seinni hálfleikurinn var hinsvegar nokkurn veginn jafn. Grétar kom KR yfir snemma í seinni hálfleik með marki með skalla. Var það sennilega hættulegasta færi heimamanna í seinni hálfleik fyrir utan gegnumbrot Kjartans Henry undir lok leiksins. Mark Grindavíkur var hinsvegar mjög glæsilegt. Ray og Alexander spiluðu vel upp hægri kantinn. Lexi kemst svo fram hjá tveimur KR ingum við endalínu og gefur fyrir. Magnús barðist um að ná boltanum við varnarmann KR og barst við það boltinn til Óla Baldurs sem snéri bakinu að markinu. Hann tók því auðvitað boltann í hjólhest og small boltinn í stöngina-inn, örugglega eitt af mörkum sumarsins.
Undir lok leiks voru KR-ingar ákafir að komast aftur yfir og við það opnaðist vörn þeirra. Grindavík átti þá hraða skyndisókn sem endaði með skoti Jósefs sem Hannes varði.
Árið 2000 náði Grindavík 7 leikjum í efstu deild án taps. Sjöundi leikurinn þá var einmitt gegn KR á KR-velli og fór hann 1-1, mark Grindavíkur skoraði Ólafur Örn Bjarnason úr víti, einmitt líka á 78. mínútu eins og mark Óla Baldurs í kvöld. Í liðinu þá var ásamt Ólafi Scott Ramsay, Ray Anthony Jónsson og Paul McShane sem allir eru í leikmannahópnum 11 árum síðar ásamt Helga Bogasyni sem var einnig á bekknum þá. Þarna var einnig að finna kappa eins og Goran Lukic, Guðjón Ásmundsson og Pál Val Björnsson. Í KR liðinu var hinsvegar Haukur Ingi Guðnason en hægt er sjá skýrsluna á vef ksi.is
Í kvöld jafnaði Grindavíkur liðið þetta met og er að sýna sínar bestu hliðar um þessar mundir. Þeir bæta svo metið í næstu umferð. “Þökk” sé fallbaráttunni erum við að sjá alvöru leiki í september en ekki hálfgerða uppgjöf eins og síðustu ár þegar Grindavíkurliðið hefur tryggt sér áframhaldandi setu í efstu deild fyrir lokaumferðirnar.
Spilamennskan í kvöld var nokkuð ólík þeirri sem liðið sýndi gegn Stjörnunni, þá var meiri hraði í leiknum og við stjórnuðum miðjunni. Í kvöld náðu okkar menn hinsvegar að hægja meira á leiknum sem hentaði okkar mönnum ágætlega gegn fljótum sóknar og miðjumönnum KR. Ólafur þjálfari var í kvöld að sýna sinn besta leik í sumar og af mörgum ólöstuðum maður leiksins hjá Grindavík.
Dómari leiksins var Magnús Þórisson og átti hann ágætan leik ásamt Birki Sigurðarsyni og Hauki Erlingssyni á hliðarlínunum.
Umfjöllun á mbl.is
Umfjöllun á visir.is
Umfjöllun á fótbolti.net
Viðtal við Ólaf þjálfara á sport.is
Viðtal við Grétar markaskorar KR á sport.is
Viðtal við Óskar á fotbolti.net
Viðtal við Orra á fotbolti.net
Viðtal við Óla Baldur á mbl.is
Viðtal við Ólaf á visir.is
Viðtal við Óla Baldur á visir.is