Glæsilegur sigur hjá 2. flokki

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

2. flokkur Grindavíkur og Njarðvíkur mættust í Reykjaneshöll í stórmerkilegum leik í kvöld. Þetta var hreinn úrslitaleikur um hvort liðið spilaði í B-riðli í sumar.

Grindvíkingar fóru á kostum og lögðu Njarðvík að velli með fjórum mörkum gegn engu og verða því í B-riðli í sumar en Njarðvík í C-riðli. Ástæðan fyrir þessum leik var sú að liðin tefldu fram sameiginlegu liði í B-riðli í fyrra en verða nú í sitt hvoru lagi og því var aðeins pláss fyrir annað liðið í B-riðli.

Gunnar Þorsteinsson kom Grindavík yfir um miðjan fyrri hálfleik eftir að hafa platað vörn Njarðvíkinga upp úr skónum. Staðan 1-0 í hálfleik. Í seinni hálfleik sundurspilaði Grindavík andstæðinga sína sundur og saman. Jón Valdimar Sævarsson bætti við öðru marki eftir klafs í teignum. Þorleifur Ágústsson bætti við þriðja markinu með skalla eftir aukaspyrnu og Arnar Ólafsson skoraði fjórða og síðasta markið með glæsilegu skoti. Það eina sem skyggði á sigurinn var að Jón Valdimar meiddist og er óttast að hann sé fótbrotinn.

Mynd: Guðmundur Egill og Gunnar voru í stóru hlutverki hjá 2. flokki í kvöld.