Glæsilegur 2-0 sigur

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Grindavík nældi í sinn fyrsta sigur í gærkvöld þegar okkar menn lögðu Val á Grindavíkurvelli.

Þar sem fréttaritari umfg.is er staddur á N1 mótinu þá fylgir hér umfjöllun Íslandsmeistarans Björn Steinars Brynólfssonar á fótbolti.net

Leikur Grindavíkur og Vals var spilaður í kvöld við flottar fótbolta aðstæður, veðrið var gott og völlurinn æðislegur.

Heimamenn voru mun sprækari í byrjun og fyrsta færi leiksins var í eigu heimamanna. Scott Ramsay tók hornspyrnu, Alexander Magnússon kom fljúgandi inní teiginn og skallaði föstum bolta beint í þverslánna. Hörku skalli og Valsmenn heppnir að vera ekki undir.

Ekki nema tveimur mínútum síðar þá kom fyrsta mark leiksins. Matthías Örn Friðriksson fékk boltann á hægri kanti og gaf lágan bolta í átt að markinu og þar var Pape Mamadou Faye réttur maður á réttum stað og kom boltanum í markið.

Eftir mark heimamanna virtist eins og Valsmenn hafi lifnað við því þeir fóru að sækja en voru kannski ekki alveg að komast í gegnum fasta vörn Grindavíkur. Rúnar Már Sigurjónsson átti fyrsta færi Valsara þá átti hann skot inní teig en boltinn fór framhjá markinu.

Matthías Guðmundsson sóknarmaður átti svo dauðafæri þegar fyrirgjöf kom í átt að marki og datt fyrir lappirnar á Matthíasi sem átti svo skot að marki en Óskar Pétursson var aldeilis á tánum og varði glæsilega.

Rúnar Már SIgurjónsson átti svo hörkuskot úr aukaspyrnu rétt fyrir utan teig en Óskar Pétursson var vel á verði.

Skrítið atvik átti sér stað í síðari hálfleik þegar að Grindavík voru með boltann hægra megin við miðju, hagnaður var nýttur og átti Matthías Örn Friðriksson sendingu í átt að markinu þar sem að Magnús Björgvinsson var sloppinn einn í gegn en af einhverjum fáránlegum ástæðum flautar dómarinn Guðmundur Ársæll Guðmundsson aukaspyrnu fyrir Grindvíkinga við miðju í stað þess að láta leikinn fljóta. En Guðmundur var fastur á sínu og aukaspyrna tekin við mikinn ófagnað stuðningsmanna Grindavíkur.

Heimamenn fóru aðeins að bakka þegar leið á og reyndu Valsmenn að nýta sér það. Rúnar Már Sigurjónsson stillti sér aftur upp fyrir aukaspyrnu rétt fyrir utan teig, Rúnar átti aftur hörkuskot sem virtist hafa farið í gegnum varnarvegg heimamanna en þar var Óskar Pétursson sem að varði skotið rétt við marklínuna.

Lítið markvert gerðist efir þetta fyrr lítið var eftir af leiknum. Ólafur Örn Bjarnason fékk boltan út fyrir teig hjá Valsmönnum og átti hann skot sem að leit út fyrir að fara í netið en boltinn small í innan verða stöngina og var Matthías Örn Friðriksson snöggur að átta sig og fylgdi vel á eftir og kom Grindvíkingum í 2-0

Varamaðurinn Kristinn Freyr Sigurðsson var nálægt því að minnka muninn fyrir Valsmenn, fyrirgjöf kom frá hægri kanti og datt við fætur Kristinns og var mikið klafs en Óskar Pétursson var enn og aftur vel á verði og náði til knattarins.

Matthías Guðmundsson var svo aftur í dauðafæri en Óskar Pétursson varði aftur glæsilega. Ekki hægt að segja að þetta hafi verið dagurinn hans Matthíasar.

Stuttu síðar var flautað til leiks loka og 100. sigur Guðjóns Þórðarsonar í efstu deild og fyrsti sigur Grindvíkinga í sumar varð staðreynd.

Mynd hér að ofan fengin að láni frá Hilmari Braga á vf.is